132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[21:03]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því brá fyrir sem oft gerist, að þegar menn hafa ekki svör við spurningunum þá fara þeir að tala um eitthvað annað. Við vorum að tala um veggjald og ég setti út á að ríkisstjórnin skyldi mæta í þingsal með þetta frumvarp eins og það er, setja það fram að það skuli fjármagnað í einkaframkvæmd og hafa ekki svörin við því hvernig eigi að fjármagna það í framtíðinni. Við höfum fyrir okkur dæmið. Það lítur þannig út, og hefur ekki enn þá verið útskýrt nógu vel fyrir okkur ef það er ekki þannig, að selja eigi aðgang að borginni ef menn ætla að keyra norður og vestur en ekki ef þeir fara út úr eða að borginni austur eða suður. Er hægt að bjóða upp á það áratugum saman að menn borgi veggjald að borginni með slíkum hætti? Það er ekki eins og það þurfi ekki umferðarmannvirki að henni báðum megin.