132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Ummæli dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni.

[13:32]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Sjálfstætt og óháð ákæruvald er forsenda þess að ríkið geti talist til réttarríkis. Markmið ákæruvalds og lögreglu er ekki aðeins að rannsaka og fjalla um það sem getur leitt til sakfellingar heldur einnig það sem getur leitt til sýknu. Ákæruvaldið verður því að vera óháð í störfum sínum eins og nokkur er kostur. Það er forsenda þess að það njóti trausts og trúverðugleika meðal almennings í landinu.

Umræðan um Baugsmálið hefur frá upphafi einkennst af ásökunum sakborninga um að upphaf málsins megi rekja til pólitískra afskipta trúnaðarmanna og forustumanna Sjálfstæðisflokksins. Fyrir liggur að trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins funduðu um málið í aðdraganda þess. Þá hefur formaður Sjálfstæðisflokksins lýst því yfir að ef pólitískur fnykur væri af málinu þá yrði því fleygt út úr dómsölum.

Í ljósi þessa, virðulegi forseti, verður að skoða ummæli hæstv. dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, á heimasíðu sinni í gær en blekið hafði vart þornað á dómi Hæstaréttar er hann lýsti því yfir að réttarkerfið hafi ekki sagt sitt síðasta í málinu og ákæruvaldið skuli taka mið af því sem fram kemur hjá Hæstarétti. Það er vegna þessara ummæla, hæstv. forseti, sem ég kveð mér hljóðs um störf þingsins.

Hvað þýða svona ummæli? Er dómsmálaráðherra að gefa ákæruvaldinu fyrirmæli um að áfram skuli haldið með málið? Er það skilningur ráðherrans að dómstólar hafi það hlutverk að gæta leiðbeiningarskyldu gagnvart ákæruvaldinu? Má túlka þetta sem hótun um að réttarkerfið komist að „réttri niðurstöðu“ eða er ráðherra að segja að afskiptum sjálfstæðismanna af málinu sé ekki lokið? Hæstv. dómsmálaráðherra og aðrir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar verða að taka af öll tvímæli um að hér sé ekki um að ræða fyrirmæli frá framkvæmdarvaldinu til ákæruvaldsins. Það er í reynd mál að afskiptum sjálfstæðismanna af þessu máli linni.