132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Ummæli dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni.

[13:34]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Mér finnst þessi umræða vera dálítið sorgleg og einkennileg. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson reynir hér að draga upp þá mynd af dómsvaldinu að það sé ekki sjálfstætt og ákæruvaldið sé háð duttlungum framkvæmdarvaldsins og einstakra ráðherra og vísar til þeirra ummæla sem féllu á heimasíðu hæstv. dómsmálaráðherra um að réttarkerfið hefði ekki sagt sitt síðasta orð í þessu máli. Það vita allir að dómur hefur fallið um frávísun 32 ákæruliða í málinu og málið mun halda áfram. Réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð í málinu. Við vitum það. Réttarfarsreglurnar sem gilda í landinu ganga út á það.

Ég vil benda hv. þingmanni á að það segir beinlínis á bls. 27 í dómi Hæstaréttar:

„Lýkur því málinu ekki með dómi þessum gagnvart neinum þeirra.“ Það er að segja þeirra aðila sem bornir eru sökum. Hvað þýðir þetta? Hæstiréttur er einfaldlega að segja að réttarkerfið hafi ekki sagt sitt síðasta orð í þessu máli og það er einmitt það sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði á heimasíðu sinni. Svo koma hér hv. þingmenn og tala fjálglega um að í þessu felist einhver pólitísk afskipti. Ætla hv. þingmenn eins og Kristinn H. Gunnarsson ekki að halda því fram að Hæstiréttur Íslands sé að beina einhverjum skipunum til ákæruvaldsins? Auðvitað er ekki svo. Við höfum réttarfarsreglur í landinu. Eftir þeim er farið og þessi ummæli hæstv. dómsmálaráðherra sanna ekkert eða sýna ekkert fram á það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eitthvað með þetta mál að gera. Nú er það komið í hendur réttra aðila, sem er ríkissaksóknari, og við skulum bara sjá hvernig málinu vindur fram og leyfa þeim aðilum sem hafa það með höndum að vinna vinnu sína í friði. Ég tel að stjórnmálamenn og við sem sitjum á Alþingi eigum ekkert að vera að hlutast til um það hvernig þessir menn vinna vinnuna sína.