132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Ummæli dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni.

[13:41]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði eitthvað á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki komið nálægt þessu máli. En nú blasa staðreyndir málsins við. Ritstjóri Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hleyptu þessu máli af stað, það eru staðreyndir málsins. Síðan má greina rödd sársvekkts manns á heimasíðu hæstv. dómsmálaráðherra, svekktur yfir dómi Hæstaréttar.

Ég get verið sammála hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni um að dómstólar og réttarfarið eigi að vinna í friði en það er einmitt það sem hæstv. dómsmálaráðherra er ekki að gera. Hann er ekki að láta menn vinna í friði með umræddum ummælum. Ég skora á hæstv. dómsmálaráðherra að biðjast einfaldlega afsökunar á ummælum sínum og draga skrifin til baka en dæmi eru um að hann hafi breytt skrifum sínum á meðan hann hefur verið staddur í útlöndum og ég skora á hæstv. dómsmálaráðherra að gera það enn á ný.