132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[13:58]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 9. þm. Reykv. s. fyrir að gera ákveðna þætti málefna eldri borgara að umtalsefni hér á Alþingi. Það hefur löngum verið tekist á um tölur um bætur, um tekjur og kjör eldri borgara í prósentum og hv. 9. þm. Reykv. s. gerir einmitt tekjuþróun lífeyrisþega hér að umtalsefni. Hann nefnir tölur um það sem hann kallar gliðnun tekna þeirra annars vegar og launa verkafólks hins vegar. Fullyrt er að kjör hinna fyrrnefndu hafi rýrnað umtalsvert borið saman við seinni hópinn.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef lítur dæmið öðruvísi út þegar byggt er á skattagögnum. Samkvæmt þeim upplýsingum og þegar miðað er við alla lífeyrisþega jókst kaupmáttur þeirra um tæp 10% á móti 14% aukningu almennrar launavísitölu á árunum 1988–2003. Þegar hins vegar er horft til þess þriðjungs ellilífeyrisþega sem lægstar hefur tekjurnar kemur í ljós að kaupmáttur þess hóps jókst á tímabili um 21% á móti 14% aukningu kaupmáttar samkvæmt almennri vísitölu. Hér erum við að tala um meðaltekjur á mánuði úr skrám ríkisskattstjóra, sem ég trúi að gefi hvað gleggstar upplýsingar um raunverulega afkomu ellilífeyrisþega og ég trúi því raunar að það sé skilningur málshefjanda.

Varðandi hjúkrunarheimilin sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni þá hefur okkur skilað verulega áfram á því sviði. Það bíða of margir eftir vistun og það er forgangsmál að stytta þann biðtíma. Markvisst hefur verið unnið að því að fjölga rýmum og þær aðgerðir voru m.a. liður í samkomulagi sem gert hafði verið við Samtök aldraðra fyrir þremur árum, samkomulagi sem ég tel að hafi skilað verulegum árangri fyrir aldraða á Íslandi almennt talað í hjúkrunarrýmum og í heimaþjónustu. Í því samkomulagi var gert ráð fyrir að hjúkrunarrýmum mundi fjölga um 168 á árunum 2004 og 2005 og árlegur rekstrarkostnaður vegna þessara viðbótarrýma yrði rúmlega 800 millj. kr. Við þetta var staðið.

Þessu til viðbótar hefur verið gert samkomulag við Reykjavíkurborg um uppbyggingu 110 rýma heimilis í Sogamýri, sem tekið verður í notkun 2007, og til stendur að byggja 90 rýma heimili á Lýsislóðinni, sem svo er nefnd. Þannig bætast við um 200 rými á höfuðborgarsvæðinu innan skamms en þar er þörfin brýnust.

Einnig eru Hafnarfjörður, Kópavogur og Suðurnesin á forgangslista ráðuneytisins um uppbyggingu hjúkrunarrýma á næstunni en þar er brýnt að efla uppbygginguna, m.a. til að rýma til á þeim heimilum sem þar eru fyrir.

Hv. 9. þm. Reykv. s. beinir til mín þremur spurningum. Þeirri síðustu, sem snýr að hjúkrunarheimilunum, hef ég svarað. En hann spyr í fyrsta lagi um viðræður við Landssamband eldri borgara og um verkefni vinnuhóps sem var skipaður til að fara yfir nokkra þætti er varða samskipti og samkomulag sem gert var við eldri borgara.

Samráðsnefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er ætlað að fara yfir samkomulagið sem á sínum tíma var gert við eldri borgara til að kortleggja hvað áunnist hefur og jafna hugsanlegan meiningarmun um það samkomulag. Í öðru lagi að fara yfir og meta stöðu aldraðra eins og hún er nú og komast að sameiginlegri niðurstöðu um það.

Það er spurt hvenær þessi vinnuhópur skili niðurstöðum sínum og er því til að svara að ég vonast til að það verði á næstunni eða á allra næstu vikum, í lok mánaðarins eða í byrjun næsta mánaðar. Fyrr en niðurstöðurnar liggja fyrir er ekki hægt að svara í smáatriðum hvernig brugðist verður við þeim.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um það hvort ríkisstjórnin sé reiðubúin að hækka grunnlífeyri um 17 þús. kr. á mánuði. Svar mitt við þeirri spurningu er nei. Ástæðan er sú að hækkun grunnlífeyris allra lífeyrisþega um 17 þús. kr. á mánuði þýðir brúttóútgjöld fyrir ríkissjóð upp á 8,5 milljarða kr. á ári.

Önnur ástæða fyrir því að ég svara neitandi er sú að mér finnst það nærtækara að beina kjarabótum til þess hóps sem stendur verst frekar en að hækka grunnlífeyri til allra og þeirra sem betur standa meðal ellilífeyrisþega.

Ég endurtek að það er þörf á því að ræða þessi mál og ég þakka málshefjanda fyrir að hefja máls á þessu.