132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:38]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti ekki annað en gefið forvera mínum ágæta einkunn, ekki bara hvað varðar þetta frumvarp heldur einnig önnur frumvörp sem hann hefur lagt hér fram. Ég held að á þeim tölum til hækkunar sem hér eru lagðar til á fjárlögum séu mjög eðlilegar skýringar. Vissulega eru tölurnar háar en þær koma til af sölu Landssímans að langsamlega mestu leyti og síðan vegna afskrifta skattkrafna þar sem verið er að gera breytingar á þeim forsendum að færa þær nær því sem fram kemur í ríkisreikningi og held ég að enginn geti gert athugasemd við það.

Önnur aukin útgjaldatilefni upp á 1,4%, án þess að ég hafi gert á því fræðilega úttekt af þessu tilefni, eru tiltölulega lítil miðað við það sem ég man og kannast við frá því að ég sat í fjárlaganefnd á árum áður og því tel ég að við séum að færast nær því að fjárlögin standist að mestu leyti óbreytt fyrir árið en ég held hins vegar að hv. þingmaður geri sér grein fyrir því að það geta komið tilefni á árinu sem kalla á að fjáraukalögum sé beitt og það væri rangt af okkur að hafa ekki opna möguleika fyrir slíkt.