132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að neita þessu ekki algjörlega. Ég hef undanfarin ár flutt frumvarp um að fjáraukalög verði sett að vori og þá farið yfir þau mál sem eru komin og áherslur Alþingis endurskoðaðar. Ég fagna því ef ráðherrann vill taka þetta til skoðunar og það verður hér flutt.

Annað atriði sem ég vil spyrja um, frú forseti, er um mál sem lýtur að Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra. Í kjarasamningum frá í vetur, sem komu til framkvæmda 1. febrúar sl., var kveðið á um að stuðningsfulltrúar og félagsliðar fengju fatapeninga í stað hlífðarfatnaðar er næmi um 1.500 kr. á mánuði. Það hefur ekki enn verið staðið við þessa undirskrift af hálfu fjármálaráðherra og þessir stuðningsfulltrúar og félagsliðar voru einmitt að funda nú í dag og þeim fundi er lokið fyrir skömmu. Þeir óskuðu eftir því að ráðherra stæði við þessi loforð, þennan kjarasamning sem gerður var um fatapeninga (Forseti hringir.) og ég óska svars frá ráðherra.