132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:47]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa nokkrum áhyggjum af þeirri léttúð sem nýr hæstv. fjármálaráðherra sýnir framúrkeyrslunni í ríkisrekstrinum hér í yfirlýsingum sínum. Þegar frá er dreginn Síminn er útgjaldabreyting þegar við þurfum mest á því að halda að aðhald sé í útgjöldum ríkisins, þegar þenslan er í hámarki. Þá er færslan 8 milljarðar, að vísu að teknu tilliti til afskrifta skattkrafna. Þá eigum við eftir að fá lokafjárlög og þá eigum við eftir að fá ríkisreikning. Það er rétt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað hann telji að skekkjan verði mikil á útgjöldunum frá því að frumvarpið var lagt fram í fyrra og þangað til við fáum ríkisreikninginn. Verða það 20 milljarðar eins og venjulega og telur hann að það sé ásættanlegt og verður það viðmiðið í hans fjármálaráðherratíð að það sé í lagi að hafa 20 milljarða skekkju hér?

Gagnrýnir ekki hæstv. nýr fjármálaráðherra framúrkeyrslu á litla landbúnaðarráðuneytinu upp á yfir hálfan milljarð kr.? (Forseti hringir.) Gagnrýnir hann ekki framúrkeyrslu hjá sendiráðunum upp á um 300 millj. kr.? Og gagnrýnir hann ekki framúrkeyrslu í viðhaldi menningarstofnana upp á 376 millj. kr.?