132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:49]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Uppsafnaður vandi, það má svo sem segja. Sendiráðin hafa hins vegar notið hinnar sterku stöðu íslensku krónunnar, trúi ég, og varaformaður fjárlaganefndar hefur gefið út opinbera yfirlýsingu um að fjárlaganefnd Alþingis þurfi að taka sendiráð landsins í sérstaka fjárhagslega gjörgæslu. Það hlýtur að vera tilefni til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um álit hans á þeirri yfirlýsingu og hvort hann telji mat varaformanns fjárlaganefndar á framúrkeyrslunni í sendiráðunum vera málefnalegt og hvort það sé verulegt áhyggjuefni hvernig þar hefur verið haldið á spilunum.

Hér erum við að fá fjáraukalagafrumvarp og ég skoðaði sjö ár aftur í tímann. Við erum hér með liði inni sem eru sjöunda árið í röð á fjáraukalögum. Forsætisráðuneytið sjálft, höfuð ríkisstjórnarinnar, er 1999, 2000, 2001, 2002, 2003, 2004 og 2005 alltaf á liðnum Ýmislegt. Menntamálaráðuneytið, viðhald og stofnkostnaður, öll árin sjö. (Forseti hringir.) Félagsmálaráðuneytið, Ýmis starfsemi, heilbrigðisráðuneytið, koll af kolli. (Forseti hringir.) Við hljótum að spyrja nýjan hæstv. fjármálaráðherra hvort hann ætli ekki (Forseti hringir.) að leggja metnað sinn í að taka þessa lausung einhverju taki.