132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:51]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það frumvarp til fjáraukalaga sem við ræðum nú fyrir árið 2005 ber auðvitað merki þess að mikil þensla er í samfélaginu og ekki síður merki þess að Síminn var seldur á árinu. Það eru auðvitað hinar stóru tölur sem tengjast því og hér í andsvörum hefur verið farið yfir það að ýmislegt er óljóst varðandi fjáraukalagafrumvarpið vegna þess að fjáraukalagafrumvarpið segir oft svolítið um það hversu vel agað kerfið okkar er gagnvart fjárlögunum. Það verður auðvitað að segjast eins og er, bæði þegar litið er í þetta frumvarp og horft nokkur ár aftur í tímann, að allt of mikil lausung virðist vera hvað varðar umgengni um fjárlögin. Við virðumst því miður ekki ná því að bera sömu virðingu fyrir fjárlögum og ýmsum öðrum lögum og við virðumst ekki ná svipuðu stigi í þeim efnum og ýmsar nágrannaþjóðir okkar.

Vegna þess að ég var að ræða við hæstv. ráðherra áðan um það hvernig gengi að uppfylla lögin um fjárreiður ríkisins, og hæstv. ráðherra upplýsti að hann hefði setið í þeirri nefnd sem samdi það frumvarp og þau lög, og sé því á heimavelli þegar um þau lög er fjallað, þá er auðvitað eðlilegt við upphaf þessarar umræðu að við rýnum örlítið í þau lög og áttum okkur á því hvað það er sem í raun og veru á að vera í frumvarpi til fjáraukalaga.

Það er raunverulega bara þrennt sem þar á að vera, þ.e. það sem er ófyrirséð, kjarasamningar og ný lög. En því miður er ýmislegt fleira í þessu frumvarpi eins og oft áður. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hér örfáar línur í frumvarpinu sem eru mjög alvarlegar og segja okkur það að strax í inngangi frumvarpsins er raunverulega sagt að ekki sé í þessu frumvarpi farið að lögum.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Vakin er athygli á því að ekki er beint samhengi á milli þeirra fjárheimilda sem sótt er um í frumvarpinu og áætlaðra útgjalda á árinu. Kemur þar einkum tvennt til: Annars vegar er í frumvarpinu sótt um fjárheimildir vegna umframgjalda fyrri ára sem þegar hafa verið færð í reikningum ríkissjóðs. Hins vegar verða ekki öll umframgjöld bætt á árinu og færast til frádráttar fjárveitingum næsta árs eða stofnanir ganga á ónýttar fjárheimildir fyrri ára. Með sama hætti er gert ráð fyrir að fjárheimildir verði ekki að fullu nýttar á árinu og færist á næsta ár.“

Frú forseti. Hér er sem sagt gefin yfirlýsing um það strax í upphafi að því sem segir í fjárreiðulögunum um það sem eigi að vera í slíku frumvarpi sé ekki að öllu leyti fylgt. Hér á í þessu frumvarpi eingöngu að vera það sem tilheyrir árinu 2005. Það er mjög skýrt í lögum um fjárreiður ríkisins. Samt sem áður er þessi yfirlýsing gefin hér og ég velti fyrir mér: Hvert er tilefni hennar?

Það er eiginlega aðeins eitt sem kemur mér í hug, það er greinargerð frá Ríkisendurskoðun um framkvæmd fjárlaga árið 2004. Í þeirri skýrslu eru mjög alvarlegar athugasemdir gerðar við það hvernig menn umgangast fjárlög í okkar kerfi. Þar er m.a. sagt frá því að það sé gengið svo langt gagnvart forstöðumönnum og, frú forseti, ég held að það sé rétt að lesa þetta orðrétt. Hér segir í greinargerð Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga árið 2004:

„Forstöðumenn hafa ýmist verið lattir til þess að grípa til sparnaðarráðstafana, sérstaklega ef sýnt þykir að þeim fylgi óþægilegur samdráttur í starfsemi eða þeir ekki verið áminntir með þeim hætti sem lög og reglugerðir gera ráð fyrir hlíti þeir ekki fjárlögum. Í raun og veru virðist liggja fyrir að stjórnvöld hafi samþykkt í verki (ef ekki í orði) að útgjöld viðkomandi stofnana séu aukin með þessum hætti. Með öðrum orðum er fyrst stofnað til útgjalda en heimilda til þeirra aflað síðar, stundum mörgum árum eftir að til útgjaldanna var stofnað.“

Frú forseti. Það eru auðvitað dæmi um þetta hér í þessu frumvarpi. Fjármálaráðuneytið sér sérstaka ástæðu til þess að setja hér sérstakan kafla inn í frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005 þess efnis að svona eigi raunverulega ekki að haga sér, eins og Ríkisendurskoðun segir í sinni greinargerð. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt þegar stofnunum ber ekki betur saman heldur en hér kemur í ljós.

Frú forseti. Það er fleira í greinargerð Ríkisendurskoðunar sem er rétt að rifja hér upp.

Hér segir m.a., með leyfi forseta:

„Þegar hins vegar horft er í gegnum fingur við að fjárlögum sé ekki fylgt grefur það undan þeirri virðingu og þeim aga sem þarf að ríkja gagnvart Alþingi og fjárlögum sem það setur. Slíkt ástand tíðkast hvergi í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Í reynd hlýtur meginábyrgð á þessu ástandi að liggja hjá Alþingi sem ekki gengur eftir því að fyrirmælum þess sé hlítt.“

Frú forseti. Ég held að það sé hárrétt hjá Ríkisendurskoðun að ábyrgðin er að sjálfsögðu hjá Alþingi og það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni fyrir fjárlaganefnd hvernig hún á að taka því ástandi að hér eru skeytasendingar frá fjármálaráðunetyinu til Ríkisendurskoðunar um það hvernig eigi að umgangast fjárlög ríkisins. Ég verð að segja alveg hreint eins og er að manni bregður nokkuð við að lesa þennan kafla þar sem það er hreinlega sagt að eftir lögum um fjárreiður ríkisin sé ekki farið í því frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Það eru auðvitað mýmörg dæmi sem sýna að þessi inngangskafli er skýrandi fyrir margt sem hér kemur fram. En það eru líka aðrar skýringar sem hér eru gefnar sem því miður standast ekki heldur þannig að frumvarpið er ekki einu sinni í samræmi innbyrðis.

Hér segir á bls. 59 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Loks er í nokkrum tilvikum lagt til að uppsafnaður rekstrarhalli stofnana eða verkefna verði bættur að hluta eða öllu leyti. Er það gert í þeim tilvikum að verkefni er lokið eða sýnt þykir að gripið hafi verið til þeirra aðgerða að rekstur verði innan fjárheimilda og hallarekstur verði stöðvaður.“

Hér er í raun og veru sett upp regla sem maður skyldi ætla að væri þá fylgt alveg í gegnum frumvarpið, þó svo að ég líti á, eins og ég sagði áðan, að hluti af þessari reglu falli ekki að lögum um fjárreiður ríkisins, þ.e. það er verið að bæta uppsafnaðan halla. Slíkan halla á að bæta á fjárlögum næsta árs ef það er ekki gert á fjárlögum þess árs sem í hlut á. Það er auðvitað hægt að bæta halla sem er innan ársins sem er ófyrirséður, það er eðlilegt að hann sé í fjáraukalögum.

Ég las þessa reglu að gefnu tilefni vegna þess að ég hef nokkur dæmi um að í frumvarpinu er hreinlega sagt að þessari reglu sé ekki fullnægt. Ég tek hér dæmi af handahófi og tek það fram, þannig að það valdi nú engum misskilningi, að dæmin sem ég tek hér eru ekki sett fram vegna ásakana til þeirrar stofnana sem eiga í hlut, heldur vegna þess að ég tel að það sé ekki rétt að málum staðið.

Hér er m.a. fjallað um Háskólann á Akureyri, stofnun sem hefur verið í mjög örum vexti og hefur átt við má segja að sumu leyti eðlilega fjárhagserfiðleika að etja vegna þess að nemendafjölgunin hefur oft verið meiri en áætlað var fyrir. En hér segir, og ég les þetta í samhengi við það sem ég las áðan um það hvernig uppsafnaður halli er bættur og hvenær:

„Farið er fram á 110 millj. kr. aukafjárveitingu til að koma til móts við uppsafnaðan halla á rekstri skólans en hann hefur vaxið hraðar en gert var ráð fyrir. Auk þess varð skólinn fyrir auknum útgjöldum þegar hann flutti starfsemi sína úr húsi í eigu ríkisins sem selt var á yfirstandandi ári, yfir í nýtt rannsóknarhús sem hann greiðir leigu fyrir.“ — Frú forseti. Svo segir hér og það er raunverulega aðalsetningin með vísun í það sem ég las áður. — „Skólinn vinnur með stuðningi menntamálaráðuneytisins að ýmsum breytingum í rekstri sínum sem eiga að leiða til þess að hallinn verði jafnaður á næstu árum.“ — Eiga að leiða til þess ef það heppnast.

Reglan sem sett var áðan er greinilega ekki í gildi gagnvart þessari stofnun og það eru nokkur fleiri dæmi um slíkt í frumvarpinu þar sem augljóslega er ekki búið að komast fyrir vandann en samt sem áður er þetta sett inn. Hér er því miður ekki einu sinni samhengi á milli hluta.

Þá er auðvitað rétt, frú forseti, og ástæða til að geta þess sem vel er gert. Ég sagði áðan að ýmsar framfarir hefðu orðið á síðustu árum, tilgreindi í andsvari áðan alveg sérstakan árangur sem náðst hefur varðandi það að koma tilkynningum til fjárlaganefndar þó svo að það sé ekki árangur sem er viðunandi en þó framför.

Ég fagna því alveg sérstaklega, einkum í ljósi þeirrar upptalningar sem hv. þm. Helgi Hjörvar fór með áðan á ýmsum stofnunum og ráðuneytum sem hafa verið fastir liðir a.m.k. síðustu sjö ár í frumvarpi til fjáraukalaga, að æðsta stjórn er ekki í þessu frumvarpi. Ég man varla það ár þar sem þau hafa ekki komið við sögu. Hér er greinilega um mikla framför að ræða. Og af því að við berum sérstaka umhyggju fyrir þeirri stofnun sem við störfum við, Alþingi, eru það auðvitað sérstaklega gleðileg tíðindi að Alþingi skuli ekki koma við sögu hér þrátt fyrir að miklar framkvæmdir voru í þessu ágæta húsi okkar í sumar. Þetta eru gífurlegar framfarir og ber auðvitað þakka það að áætlanagerðin hér er orðin með slíkum ágætum að ekkert er keyrt fram úr við allar þær framkvæmdir. Bara til að rifja upp og sýna hversu mikil framförin er tek ég sem dæmi að þegar við ræddum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004 höfðu líka verið ýmsar framkvæmdir það ár í þessu húsi og þá var hér upphæð sem gerði ráð fyrir að bætt yrði 60% við upphæðina sem fyrir var. Þær framkvæmdir fóru því heil 60% fram úr. Ég tel ástæðu til að geta þess að það er alveg sérstakt gleðiefni að Alþingi skuli hafa staðið sig svo vel þetta árið.

Ég nefndi æðstu stjórn og það verður auðvitað að segja að því miður komu þau tíðindi á fund fjárlaganefndar í morgun að við megum búast við að sá liður verði ekki alveg auður þegar við afgreiðum lögin frá Alþingi í desembermánuði eða í lok nóvember vegna þess að það kom fram að væntanleg er einhver upphæð vegna embættis forseta Íslands þar sem enn hefur ekki alveg náðst utan um áætlanagerð þar. Við megum því búast við einhverjum erindum um það en vonandi verður það þó þannig að málinu verði lokið. Ég ítreka enn og aftur að ég er alveg sérstaklega ánægður með að Alþingi skuli ekki vera í þessu frumvarpi til fjáraukalaga.

Ef farið er yfir einstök ráðuneyti vekur það strax athygli að hjá forsætisráðuneytinu, sem er fastur liður í þessu frumvarpi ár eftir ár, er nú óskað eftir fjárveitingu vegna kostnaðar við ráðningu lögfræðings á aðalskrifstofu. Skýringin er sú að ráðherraskipti hafi orðið haustið 2004. Haustið 2004 urðu ráðherraskipti í forsætisráðuneytinu og eru það út af fyrir sig ekki ný tíðindi en það eru hins vegar tíðindi fyrir okkur að ekki skuli hafa uppgötvast fyrr en nú á seinni hluta ársins 2005 að einhver lögfræðingur hafi glatast úr ráðuneytinu við ráðherraskiptin og það þurfi að bjarga því. Þetta er auðvitað ekki dæmi um það sem hægt er að flokka undir ófyrirséð vegna þess að menn hljóta að verða varir við það þegar þeir týna heilum lögfræðingum. Það er ekki eitthvað sem kemur upp í miðju sumarfríi.

Stærsti liðurinn þarna er auðvitað eins og fram hefur komið sala Símans. Við höfum áður tekið nokkra rimmu um það í þessum sal hvort hægt sé að áætla fyrir slíku. Það hefur verið skoðun hæstv. fjármálaráðherra, væntanlega bæði fyrrverandi og þess sem nú starfar, og fjármálaráðuneytisins að ekki sé gerlegt að áætla fyrir slíku. (Gripið fram í.) Það er hins vegar ekki í samræmi við skoðanir ýmissa annarra, auðvitað á að vera hægt að áætla fyrir slíku og þó svo að ekki sé hægt að gera það nákvæmlega hlýtur að vera hægt að nálgast það.

Síðan er hér sérkennileg tilfærslubeiðni þar sem óskað er eftir að færa tæpar 15 millj. kr. á rekstrarviðfangsefni af fasteignum forsætisráðuneytisins til að mæta uppsöfnuðum rekstrarvanda. Þetta hlýtur að leiða hugann að því hvernig áætlanir eru gerðar gagnvart þessum lið. Er verið að fresta einhverju í viðhaldi fasteignanna eða er búið að ljúka því? Hvað er að gerast þarna? Þetta er fært yfir á rekstrarviðfangsefni og þá er auðvitað spurningin: Er kannski búið að nota eitthvað af þessum peningum? Hefur það kannski verið gert í ljósi þess að hér er nokkuð traustur þingmeirihluti sem hefur ekki sýnt sig í því að rísa mikið gegn þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið? Þetta er dæmi um það sem ég kannast ekki við að hafi verið tilkynnt til fjárlaganefndar eins og gera á samkvæmt fjárreiðulögum.

Menntamálaráðuneytið er einnig eitt af þeim ráðuneytum sem er fastur liður í frumvarpi til fjáraukalaga. Það vekur athygli að heimsfundur kvenkyns menningarráðherra kemur fram í fjáraukalögunum. Ég vona að hæstv. ráðherra hafi skýringar á því og að þetta hafi verið algerlega ófyrirséð, þ.e. að fundurinn hafi ekki verið orðaður fyrr en á þessu ári. Ég skil vel að ef það býðst að halda slíkan fund að menn hlaupi til og geri það. En það er eðlilegt að spyrja hvenær og hver ákvað að þessi fundur yrði haldinn hér og þar af leiðandi sá kostnaður sem honum fylgdi því að ég veit ekki betur en að þessi fundur sé búinn og þar af leiðandi væntanlega búið að greiða flesta reikninga sem honum fylgdu. (Gripið fram í.) Það er heimsfundur kvenkyns menningarráðherra, hv. þingmaður, stór og mikill fundur.

Síðan kemur hér að vísu ekki há upphæð, og það er auðvitað rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að oft er hér ekki um mjög háar upphæðir að ræða, en samt sem áður er þetta spurning um hversu mikinn aga við sýnum í meðförum varðandi fjárlög ríkisins, en hér eru 5 millj. kr. vegna kostnaðar við nefnd um málefni fjölmiðla. Það er eðlilegt að greiddur sé kostnaður við þessa nefnd en það er sérkennilegt að ekki skuli hafa uppgötvast fyrr en nú að slíkt þyrfti að gera vegna þess að nefndin tók til starfa 5. nóv. 2004. (Gripið fram í.) Nefndin hóf störf 5. nóv. 2004 og ég geri ráð fyrir að menn hafi ætlað að eitthvað þyrfti að greiða fyrir þau störf.

Hér er annað ágætt mál, Orðabók Háskólans, þar sem óskað er eftir 15 millj. kr. vegna nýrrar rafrænnar orðabókar með um 50 þúsund uppflettiorðum ásamt skýringum á sænsku, norsku og dönsku. Þarft mál og brýnt, en hvenær var þetta verk ákveðið og hvar og er það kannski byrjað? Þetta vekur upp slíkar spurningar.

Við getum haldið áfram með menntamálaráðuneytið. Allt það sem snýr að Tækniháskóla Íslands hefði í raun átt að vera í fjárlögum þessa árs því það lá auðvitað fyrir hvað þar var að gerast. Síðan vekur sérstaka athygli, að vísu ekki há upphæð, hjá Námsmatsstofnun þar sem farið er fram á 10 millj. kr. framlag vegna kostnaðar sem féll á stofnunina árið 2004. Enn einu sinni kem ég að því sama að megnið af þessum tölum er eitthvað sem ekki á að vera í þessu frumvarpi. Í raun og veru ætti þingið að taka á sig rögg og gera svipað og ýmsir dómstólar hafa gert að undanförnu varðandi það þegar pappírar eru ekki betur gerðir en þetta, það ætti að vísa þeim aftur heim og láta menn vinna verkið upp og gera það eins og á að gera. En eins og ég sagði áðan er meiri hluti þingmanna hér ekki þekktur fyrir að sýna mikið aðhald fyrir þá ríkisstjórn sem nú starfar. Af hverju vekur þessi tala sérstaka athygli? Jú, vegna þess að hún er um 50% aukning. Þarna hlýtur að vera fullkomin skýring en ég trúi varla skýringunni sem hér er gefin en hún er að þetta hafi verið kostnaður við að flytja á milli húsa. Það kostar stofnun sem hefur um 20 millj. kr. á fjárlögum 10 milljónir að flytja á milli húsa. Það hlýtur að vera löng leið og mikið að flytja. Þetta var árið 2004 og eins og ég sagði áðan, frú forseti, á þetta að sjálfsögðu ekki heima hér.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er að lokum kominn og ég verð því að gera hlé og halda áfram í seinni ræðu minni á eftir, en ég ætla að reyna að ljúka menntamálaráðuneytinu. Hér er talað um 100 millj. kr. til framhaldsskólanna almennt og sagt vegna nemendafjölgunar. Ég spyr: Dugir þetta til að mæta þeirri nemendafjölgun sem orðin er í framhaldsskólunum? Ég hef því miður grunsemdir um að því sé víðs fjarri og þetta sé eins og oft áður eitthvað sem að þarf að laga, því er nú verr og miður.

Loks eru hér tveir liðir um Vélskóla Íslands og Stýrimannaskólann. Það eru afar sérkennilegir liðir og skýringar þar vegna þess að ég veit ekki betur en að Fjöltækniskóli Íslands hafi tekið við starfsemi þessara beggja skóla. Ég held að það hafi verið árið 2004 eða 2003 sem sá skóli tók til starfa þannig að ég átta mig engan veginn á því hvað þessir liðir eru að gera í þessu fjáraukalagafrumvarpi

Frú forseti. Tími minn er liðinn en umræðuefnið fjarri því að vera búið þannig að ég bið forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.