132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:55]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að formaður fjárlaganefndar taki undir að í fjárlaganefnd Alþingis þurfi að rannsaka eða taka til sérstakrar athugunar sívaxandi útgjöld til sendiráðanna og óheimilar og ólöglegar framúrkeyrslur þeirra úr fjárheimildum.

Ég vil þá spyrja hv. þingmann um annað atriði sem hann nefndi í sínu máli, þ.e. fjárveitingar til landbúnaðarháskólanna. Svo einkennilega vill til að hér eru háskólar í landinu sem heyra ekki undir menntamálaráðuneytið heldur eitthvert allt annað ráðuneyti. Það hefur komið fram að þau reiknilíkön sem gilda um fjárveitingar til annarra háskóla í landinu gilda ekki um þessa landbúnaðarskóla og þar virðast öll fjármál vera í miklum ólestri, bæði á Hólum og á Hvanneyri. Við hljótum að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort ekki sé tilefni til þess að reiknilíkanið sem gildir fyrir aðra háskóla verði líka látið gilda um þessa háskóla og hvort ekki sé nauðsynlegt að einhver reglufesta ríki í þessum fjárveitingum.

Sömuleiðis vil ég, vegna þess að hann nefndi samninga landbúnaðarráðuneytisins, (Forseti hringir.) spyrja hann um álit hans á þessum samningi, um 100 millj. kr. kostnað við kynbætur og aðra þess háttar hluti, við Stéttarsamband bænda.