132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:00]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti eftir að taka undir í einu atriði með hv. þingmanni, það snýr að hinni miklu byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þar er verið að skuldbinda sig með samningi 35 ár fram í tímann. Hins vegar er fagnaðarefni að menn skuli vera að ganga frá þessu núna þrátt fyrir að við munum ekki sjá þetta á fjárlögum fyrr en 2009, það eru ágæt vinnubrögð.

En í samhengi við annan lið sem ég gerði að umræðuefni og varðar fjárlagafrumvarpið á næsta ári þykir mér það vera miklu meiri lausung og ekki dæmi um festu í ríkisfjármálunum að þar skuli standa í heimildalið líka að greiða hlut ríkisins í undirbúningskostnaði Austurhafnar TR, þ.e. að ekki sé sett ákveðin upphæð í frumvarpið. Nú er verið að undirbúa samninginn eða verið er að fá heimild til þess að skrifa undir hann, sem er út af fyrir sig hið besta mál, en það er alveg með ólíkindum að upphæðin skuli ekki liggja fyrir, (Forseti hringir.) hvað undirbúningskostnaðurinn (Forseti hringir.) sé mikill og hvað ríkið þurfi að borga í honum.