132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna undirtektum hv. formanns fjárlaganefndar við því máli sem ég hef ítrekað flutt um að lögð verði fram formleg fjáraukalög oftar á ári, að vori og síðan aftur að hausti, og að reynt verði að taka fastari tökum hina lögformlegu og þinglegu umgjörð fjárlaganna. Ég fagna því.

Einnig fagna ég þeim áherslum sem formaður fjárlaganefndar kom inn á varðandi vinnu og sjálfstæði fjárlaganefndar og þingsins gagnvart ráðuneytunum og framkvæmdarvaldinu við gerð fjárlaga. Við höfum jú sagt þetta áður hér en gengið misjafnlega en til þess erum við hér að halda út og koma skikki á þessi vinnubrögð. Auðvitað gengur það ekki að ráðuneytin fari stöðugt bara eigin leiðir.

Formaður fjárlaganefndar ítrekaði og lagði áherslu á hvað það væri gott með sölu Símans að meira að segja fjármagnstekjuskatturinn skilaði tekjum til sveitarfélaganna, til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. En þetta gerist bara einu sinni og sama er um aðra slíka skatta sem tengjast svona sölu. Það sem aftur er verið að gera af hálfu ríkisvaldsins og meiri hlutans hér er að verið er að lækka tekjuskattinn og skerða hinn fasta grundvöll bæði fyrir tekjur ríkissjóðs og einnig fyrir jöfnunarsjóðinn því að hann fær sínar prósentur af skatttekjunum, hluta af öllum skatttekjum sem koma í ríkissjóð og þar með líka tekjuskattinum. Það er hann sem er verið að lækka en hann er hinn fasti grunnur, hitt er ekki til að byggja á.

Hvernig líst hv. þingmanni á þann hluta af skattheimtunni og skattstefnunni sem ríkisstjórnin er hér að framkvæma gagnvart sveitarfélögunum?