132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:26]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra svörin og mun að sjálfsögðu leita eftir því með skriflegri fyrirspurn að fá þessar upplýsingar fram. En mig undrar nú samt svolítið að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki hafa heyrt neitt um afleiðingarnar eða kostnaðaraukann af raforkulögunum. Ég trúi því varla að við höfum í landinu heila hæstv. ríkisstjórn sem hefur ekkert skoðað afleiðingarnar af lagasetningunni um raforkumálin. Það finnst mér alveg með ólíkindum og einnig að það hafi ekki neitt verið rætt á ríkisstjórnarfundum.

En ef svo er ekki þá er náttúrlega fullt tilefni til þess að reyna að fá fram slíkar upplýsingar sem eru þá samanburðarhæfar þannig að við getum talað um þetta mál eins og það liggur fyrir en ekki út frá innsendum ákveðnum reikningum frá ákveðnum einstaklingum.