132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:30]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum rætt nokkuð almennt um frumvarp til fjáraukalaga sem hér hefur verið lagt fram. Eins og fram hefur komið við umræðuna er erfitt að gera nýjan fjármálaráðherra ábyrgan fyrir fjármálastjórn forvera hans lengst af árinu. En þetta er hins vegar frumvarp hæstv. fjármálaráðherra. Við hljótum að treysta því að hann leggi ekki neitt til nema þau atriði sem hann hefur kannað gaumgæfilega áður að eigi við rök að styðjast og ekki verði komist hjá að setja í fjáraukalög. Ég vildi þess vegna einfaldlega beina nokkrum spurningum um einstök mál til hæstv. fjármálaráðherra.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja um það sem lýtur að utanríkisráðuneytinu. Þar er margumrædd aukafjárveiting upp á 274 millj. kr. til sendiráða landsins sem hafa, eins og fram hefur komið, fengið kappnógar fjárveitingar á undanförnum árum. Maður skyldi ætla að það nægði miðað við þá aukningu. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ákveðin sendiráð, tiltekin sendiráð, hafi skapað þennan vanda, þessa framúrkeyrslu. Hvaða sendiráð eru það þá? Eða standa almennt öll sendiráðin svona illa að fjármálastjórn sinni? Vegna þess að sundurliðunin er ekki lengur í fjárlögunum tel ég nauðsynlegt að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi okkur um hvað er á bak við þennan lið og geri grein fyrir því hvaða sendiráð valdi þessum vanda. Það þarf að liggja fyrir í umræðunni þannig að hægt sé að takast á við þann vanda.

Næst kemur landbúnaðarráðuneytið og rétt að spyrja nokkuð um það. Það er auðvitað til marks um ótrúlegan skort á aðhaldi í ríkisfjármálum að landbúnaðarráðuneytið fái yfir hálfan milljarð króna í aukafjárveitingum. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega um fjárveitingu vegna samnings við Bændasamtökin frá því í maí, þar sem gert er ráð fyrir 35 millj. kr. aukafjárveitingu á þessu ári, ef ég man það rétt, vegna kynbóta og þróunar. Það eru ný útgjöld að því er virðist og samningur sem mér er a.m.k. ekki kunnugt um að hafi verið fjallað um í þinginu eða ákvarðanir teknar um hann hér. Nauðsynlegt er að hæstv. fjármálaráðherra geri okkur grein fyrir hinum nýju verkefnum sem hann telur ástæðu til að gefa aukafjárveitingu fyrir til Bændasamtakanna með þessum hætti, til þessa nýja kostnaðarliðar upp á yfir 100 millj. kr. á ári. Jafnframt mætti hann segja okkur hversu lengi við erum bundin af þeim samningi.

Hitt sem vekur hvað mesta eftirtekt í landbúnaðarráðuneytinu er að þar koma inn aukafjárveitingar vegna samninga um búvöruframleiðsluna. Þær fjárveitingar, fyrir utan grænmetisframleiðsluna, eru settar inn með tilvísun til reiknilíkans og eiga að vera uppgjör á greiðslunum yfir tímabilið frá 2001 til 2005, þótt þetta eigi bara að vera fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2005. Hæstv. fjármálaráðherra ætti því að upplýsa okkur um hvaða reiknilíkan þetta er og hvenær það var búið til. Það hefur augljóslega ekki verið notað á síðustu árum fyrst að hér er verið að gera upp árin 2001–2004 með þessu reiknilíkani. Það er nauðsynlegt að fyrir liggi með hvaða hætti þingið er skuldbundið af þessu reiknilíkani og nákvæmlega hvað í þessum líkönum kallar á hinar miklu aukafjárveitingar til landbúnaðarráðuneytisins.

Að síðustu, virðulegur forseti, tek ég fyrir atriði sem hæstv. ráðherra þekkir mjög vel og ítarlega. Það eru atriði sem falla undir hans fyrra ráðuneyti, þ.e. sjávarútvegsráðuneytið. Við sjáum þar 25 millj. kr. aukafjárveitingu vegna vísindaveiða á hval. Við hljótum að spyrja hæstv. fjármálaráðherra og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Árna M. Mathiesen, hvort þær veiðar hafi ekki verið fullkomlega fyrirsjáanlegar. Hvers vegna var ekki gert ráð fyrir þeim á fjárlögum yfirstandandi árs og í hvað fara þessar 25 millj. kr.? Hver er ráðstöfunin á þessum 25 millj. kr.? Hvaða kostnaðarliðir eru þetta, fyrir hvað er verið að borga? Er þetta geymslukostnaður á kjötinu eða hvað er um að ræða?

Að síðustu er leitt að sjá í fjáraukalagafrumvarpi fjármálaráðuneytið sjálft og ekki síst Fjársýslu ríkisins. Það er mikilvægt að Fjársýsla ríkisins og fjármálaráðuneytið sjálft gangi á undan öðrum stofnunum ríkisins með góðu fordæmi í þessu efni. En þar sjáum við 27,4 millj. kr. kostnaðaraukningu vegna samnings við Skýrr um hugbúnaðarkerfi fyrir Fjársýsluna. Það er leitt til þess að vita að sá samningur fari fram úr áætlunum. Við höfum áður heyrt talsverðar áhyggjur af því hve illa gekk að innleiða þetta kerfi. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hver kostnaðurinn er þá orðinn af þessum Skýrr-samningi á yfirstandandi ári.

Ég held að þetta láti ég nægja við 1. umr. um fjáraukalög. Okkur gefst gott tækifæri til að ræða einstakar fjárveitingar þegar fjárlaganefnd hefur farið yfir frumvarpið og það kemur inn til 2. umr.