132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:37]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Yfirlitið yfir sendiráðin hef ég ekki á staðnum en ég skal gera ráðstafanir til þess að það verði kynnt í fjárlaganefnd.

Varðandi spurningar um samninga við Bændasamtökin og bændur þá er um að ræða hefðbundna samninga sem hafa verið endurnýjaðir að undanförnu. Á þeim hafa verið gerðar breytingar. Með þeim er brúað bilið á milli eldri og nýrri samninga. Reiknilíkönin snúast um kynbóta- og þróunarverkefni, hvernig til tekst í þeim efnum og hvort þar þarf að fara í mikið starf. Það liggur því til grundvallar. Ég veit ekki hversu miklu nákvæmari skýringar hv. þingmaður vill fá um hvernig kynbótastarf gengur fyrir sig. Ég gæti haldið langa og lærða fyrirlestra um það og þyrfti ekki mikinn undirbúning til þess. En um þetta snúast þessir samningar sem ættu að vera flestum í þinginu að góðu kunnir.

Varðandi tölvubúnaðinn þá held ég að það sé reynsla margra að þegar farið er út í viðamiklar breytingar á tölvubúnaði þá sé erfitt að áætla allt nákvæmlega fyrir fram. Ég held að miðað við umfangið séu þessi frávik ekki mikil.

Ég var farinn að hafa áhyggjur af því að enginn mundi spyrja um neitt í sjávarútvegsráðuneytinu. En það er fljótlegt að svara því, að auðvitað fer megnið af þeim fjármunum í kostnað vegna veiðanna og að hluta til í úrvinnslu úr sýnunum. Þar fer ekkert í geymslukostnað því að þeir sem veiða eignast kjötið. En ákvarðanir um þetta hafa aldrei verið teknar fyrr en í upphafi veiðitímabils.