132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:39]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Víst vissi ég að hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen væri vel að sér um kynbætur og trúi að hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson sé það líka. En mér er spurn: Hvað knýr menn til að gera samning í maí síðastliðnum við Bændasamtökin um ný verkefni og láta þau hefjast 1. september og kalla eftir aukafjárveitingum upp á tugi milljóna kr.? Hvað er svo knýjandi í þeirri samningsgerð um ný verkefni að þannig þurfi að standa að verki?

Í öðru lagi spyr ég: Hversu skuldbundið er þingið af þeim reiknilíkönum sem hæstv. fjármálaráðherra vísar til? Eru það óhjákvæmileg útgjöld eða einhvers konar eftirásamkomulag um viðbótargreiðslu vegna búvörusamninganna sem þingið getur tekið afstöðu til og samþykkt eða hafnað eftir atvikum?

Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að ætla að leggja fram sundurliðað yfirlit yfir sendiráðin í fjárlaganefndinni. Það mun koma að góðum notum við þá sérstöku athugun sem fjárlaganefnd þarf að láta fara fram og formaður hennar hefur lýst yfir að fari fram á fjárreiðum sendiráða og því aðhaldsleysi sem þar virðist í útgjöldum.