132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:19]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segist vera á móti því að selja Landsvirkjun en sú sala mun að sjálfsögðu verða kölluð Jónssala því að hann stakk upp á henni.

Varðandi það að þetta séu dýrmætar eignir og annað slíkt, ég minni á það sem við ræddum í gær að sala Landssímans lækkar skuldir ríkissjóðs og sparar vaxtagreiðslur um alla framtíð. Ég hygg að það muni koma ríkissjóði og skattþegnum landsins miklu betur en að eiga þetta fyrirtæki miðað við þann arð sem hefur fengist af því undanfarið, um 2 milljarðar á ári að jafnaði. Það er ekki mikill arður af 66 milljarða virði.

Ef við seldum Landsvirkjun mundum við geta greitt upp allar skuldir ríkissjóðs og við gætum auk þess lækkað skatta á landsmenn og við gætum hugsanlega byggt tónlistarhús.