132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:22]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni að ég dásamaði ræðu hans. Hann sagði þar það sem ég hef venjulega sagt um þetta frumvarp þegar það hefur verið lagt fram á haustþingi, ég þurfti ekki að fara í gegnum þá rullu alla.

Varðandi tónlistarhúsið og hvernig það yrði meðhöndlað, ég gleymdi því áðan í ræðunni, frú forseti, þá þyrfti að sjálfsögðu að setja það inn á lánsfjárlög. Það getur ekki komið inn á fjárlög því að þetta eru árlegar greiðslur. Mér sýnist þetta þurfa að komast inn á lánsfjárlög vegna þess að gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði 324 milljónir árlega í 35 ár nákvæmlega eins og af 35 ára láni sem ríkissjóður tekur, reyndar án vaxta.