132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:33]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla út af fyrir sig ekki að halda uppi neinum sérstökum ágreiningi við hæstv. fjármálaráðherra um þessa fjármuni, ég vek einfaldlega athygli á því að við tókum þessa umræðu síðastliðið vor og þá var talið að þeir væru kannski að hámarki 500 milljónir. Ég hygg að þetta verði u.þ.b. 200 milljónum meira. Ég furða mig svolítið á því ef Hafrannsóknastofnun þarf sérstaklega 19 milljónir til að standa undir loðnurannsóknum miðað við þá fjármuni sem Alþingi ráðstafaði beint úr Þróunarsjóðnum í aukin rannsóknarverkefni, og er ég þá ekkert að gera lítið úr því verkefni. Ég held að það sé afar nauðsynlegt eins og hitafar sjávar er hér við land að fylgjast nákvæmlega með loðnurannsóknum og skoða lífríkið og þær breytingar á lífríkinu sem þar eru að verða. Það er auðvitað margt fleira sem mun fylgja því ef loðnan færist af Íslandsmiðum og lengra norður í höfin, ég tala nú ekki um ef hún færist yfir lögsöguna Grænlandsmegin. Það er fullt tilefni til að sinna því verkefni vel og ég geri ekki lítið úr því að þær rannsóknir þurfi að stunda. Ég velti því hins vegar fyrir mér vegna umræðunnar sem hér varð um þessa fjármuni í Þróunarsjóðnum á sínum tíma hvort tekin hefði verið mikil áhætta ef settar hefðu verið eins og 50 milljónir í að bjarga Kútter Sigurfara á Akranesi frá þeirri niðurníðslu og fúnun sem á skipinu er að verða. Við þurfum að taka virkilega vel á ef við ætlum að varðveita þetta eina eintak sem við eigum úr siglingasögunni af þeirri skipagerð hér á landi. Það mætti taka Færeyinga þar til fyrirmyndar sem eiga þrjú siglandi skip af slíkri gerð.