132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[17:46]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Sambærileg frumvörp hafa komið inn í þingið nánast árvisst undanfarin ár þar sem verið er að hækka skatta á skattgreiðendur vegna framlaga í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég hef hingað til lagt fram breytingartillögu við þessi frumvörp vegna þess að ég hef talið það óeðlilegt að ákveðnir láglaunahópar greiði slíkt gjald, en eins og menn e.t.v. muna greiða aldraðir ekki umrætt gjald og ákveðnir hópar sem eru undir ákveðnum tekjum.

Verið er að hækka þetta gjald um rúmar 300 kr. Ég veit ekki hvort það hefur neinn tilgang að vera að koma með breytingartillögu í þá veru sem við höfum gert því ekki hefur verið tekið undir það hér í þinginu og slíkar tillögur felldar ítrekað. Við höfum líka lagt til að það verði sett inn í lögin að tryggt verði að meiri hluti af þessum greiðslum úr Framkvæmdasjóði aldraðra fari í uppbyggingu á hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrýmum fyrir þá sem þurfa á hjúkrun að halda, en eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hefur það ekki verið að öllu leyti svo.

Ég vil einnig benda á, eins og hún gerði reyndar í máli sínu áðan, að mjög mikil þörf er á fjölgun hjúkrunarrýma. Þó svo að gert hafi verið samkomulag árið 2002 við aldraða um fjölgun hjúkrunarrýma er ljóst að um 500 manns bíða eftir hjúkrunarrýmum og duga þau 200 rými skammt, fyrir árið 2007, sem hæstv. ráðherra talaði um fyrr í umræðu í dag og eru væntanlega á höfuðborgarsvæðinu. Öldruðum fjölgar hér á landi og læknisfræðinni fleytir fram og menn lifa lengur þannig að búast má við að aldraðir muni þurfa frekari þjónustu á ævikvöldinu í framtíðinni.

Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að nú hefur verið lögð mikil áhersla á að auka heimaþjónustu fyrir aldraða til að þeir geti búið sem lengst heima og þurfi þá ekki að fara á hjúkrunarheimili fyrr en þeir eru orðnir það illa haldnir að þeir geti ekki dvalið heima, hvað er væntanlegt í aukinni heimaþjónustu fyrir aldraða? Má búast við að eitthvað af þeim fjármunum sem fara í Framkvæmdasjóð aldraðra komi þá jafnvel í að byggja upp slíka þjónustu?

Vissulega er full ástæða til að skoða hvort það borgar sig ekki að fjölga enn frekar hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu í ljósi þess hversu margir aldraðir hjúkrunarsjúklingar bíða í dýrum sjúkrarúmum á sjúkrahúsunum. Þetta höfum við margoft rætt og full ástæða til að taka á.

Varðandi hjúkrunarrýmin hefur það verið að gerast um leið og menn hafa verið að byggja upp hjúkrunarheimili að gömlu hjúkrunarheimilunum hefur verið breytt til að mæta kröfum nýrra tíma um að fólk búi í einbýlum. Bent var á aðstæðurnar á Sólvangi í dag. Auðvitað þarf að taka á slíku, það er ekki boðlegt að aldraðir dvelji þrír, jafnvel fleiri, allt upp í fimm saman á stofum á hjúkrunarheimilum.

Ég vil gjarnan fá svör við því við þessa umræðu hvað er fram undan í sambandi við aukna heimaþjónustu svo aldraðir geti verið lengur heima og hvort væntanleg uppbygging er á slíkri þjónustu og hvenær menn megi búast við því að hægt verði að mæta þeirri þörf sem lýsir sér í þeim fjölda sem bíður í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Þetta mál mun koma til heilbrigðis- og trygginganefndar þar sem ég á sæti og mun ég og félagar mínir úr Samfylkingunni þar skoða hvort við leggjum til einhverjar breytingar á frumvarpinu áður en það fer frá nefndinni. En ég get tekið undir að full ástæða er til að efnahags- og viðskiptanefnd skoði málið því að þetta er vissulega skattamál um leið og þetta er náttúrlega málefni aldraðra.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri en vonast til þess að hæstv. ráðherra svari þeim fyrirspurnum sem hafa verið lagðar fram í dag.