132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[17:52]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra sem felst í því að hækka gjald til Framkvæmdasjóðs aldraðra um 5,87%. Þetta er einn af tveimur eða þremur nefsköttum í kerfinu. Þeir eru þetta gjald, sem er nálægt 500 kr. á mánuði, og persónuafslátturinn sem er mínusgjald, mínusnefskattur, ég man ekki alveg upphæðina en það eru um 26 þús. kr. á mánuði sem hver Íslendingur fær til greiðslu skatta. Síðan má segja að útvarpsgjaldið sé eins konar nefskattur líka því að það leggst á fjölskyldur og nú eru flestir eða allir með útvarp eða sjónvarp þannig að útvarpsgjaldið má líta á sem eins konar persónu- eða nefskatt.

Ég hefði talið eðlilegt að sameina þessa skatta og lækka persónuafsláttinn um þetta gjald, þ.e. 500 kr. á mánuði, og fella það niður. Það yrði mikil einföldun og er í samræmi við ræðu hæstv. forsætisráðherra um einfaldara Ísland. Það yrði mikil bót að því. Það mundi fækka sköttum sem fólk þarf að muna og reyna að skilja og flestir muna náttúrlega ekkert eftir þessu og vita ekkert hvað þetta er og spyrja sennilega á hverju einasta ári: Hvað er eiginlega þetta gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra?

Í rauninni breytist ekki neitt við það að lækka persónuafsláttinn og það mætti meira að segja marka tekjur, að þessi hluti af persónuafslættinum eða lækkun persónuafsláttarins renni til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Það mundi ekkert breytast nema gagnvart öldruðum sem núna njóta skattfrelsis, þeir sem eru sjötugir og eldri. Í staðinn mætti hækka ellilífeyrinn um 500 kall, bara með einni aðgerð í eitt skipti þannig að þeir gætu borgað þetta gjald og gerðu það í þágu einfaldleikans. Það mundi líka leiða til flatari tekjuskatts sem er í samræmi við þróun sem er víða erlendis að menn eru að reyna að einfalda skattkerfið með því að taka upp flatari tekjuskatt.

Síðan tek ég undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að þetta mál á eðlilega heima í efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta er skattamál og ekkert annað. Verið er að leggja skatt á alla Íslendinga, nefskatt, og mjög eðlilegt að það fari til efnahags- og viðskiptanefndar. Verði ekki sú reyndin leggjum við til að heilbrigðis- og trygginganefnd vísi málinu til umsagnar í efnahags- og viðskiptanefnd því að það er sú nefnd þingsins sem á að fjalla um skattamál.