132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[17:58]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki að leggja til neina aukningu á réttlæti vegna þess að þetta breytti nánast engu, bara engu, nema það mundi laga þetta skrýtna fyrirbæri að ef menn eru akkúrat í kringum skattleysismörkin og hafa einni krónu meira í tekjur, þá þurfa þeir allt í einu að borga fimm þúsund krónur í skatt, þeir sem eru rétt undir mörkunum en það eru ekki nema sárafáir. Þetta var því ekki hugsað sem réttlæti nema að því leyti að einfalt kerfi er alltaf réttlátara vegna þess að almenningur skilur það. Það þarf ekki að fara í háskólann til að læra um skattalög til að vita hvað þessi lína þýðir: Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Flækja á öllu kerfinu, á bótakerfinu, flækja á öllu í þjóðfélaginu kemur sérstaklega þeim sem eru veikastir verst vegna þess að þeir kunna ekki á kerfið, það er bara þannig. Það eru ekki allir að fjalla um lög alla daga eins og við hv. þingmenn.

Það mundi auka réttlæti almennings að kerfin yrðu einfölduð, að því leyti mundi þetta auka réttlætið. En þessi hugmynd var alls ekkert ætluð til þess að auka réttlætið, þetta ætti að koma nákvæmlega eins út.