132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Nýtt tækifæri til náms.

7. mál
[18:19]
Hlusta

Flm. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um nýtt tækifæri til náms. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, Katrín Júlíusdóttir, Mörður Árnason og Össur Skarphéðinsson. Tillögutextinn er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta semja og leggja fyrir Alþingi áætlun um átak í menntun þeirra sem ekki hafa lokið námi á grunn- eða framhaldsskólastigi. Markmiðið er að hækka menntunarstig þjóðarinnar og skapa nýtt tækifæri til náms og auðvelda fólki að taka aftur upp þráðinn í náminu þar sem frá var horfið. Við undirbúning og framkvæmd verði haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, samtök sveitarfélaga, Vinnumálastofnun, Atvinnuleysistryggingasjóð og menntastofnanir. Áætlunin verði lögð fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2006.“

Herra forseti. Þessi þingsályktunartillaga hefur verið lögð áður fram á Alþingi, bæði á 128., 130. og 131. löggjafarþingi. Nýtt tækifæri til náms fyrir þá sem ekki hafa lokið grunn- eða framhaldsskólanámi er eitt brýnasta verkefni í menntamálum samtímans. Samfélaginu ber skylda til að skapa þeim nýtt tækifæri sem horfið hafa frá námi, t.d. vegna takmarkaðrar þjónustu menntakerfisins eða persónulegra erfiðleika. Þekkingu á ýmsum námserfiðleikum hefur fleygt fram og nú er t.d. hægt að greina bæði lestrar- og stærðfræðierfiðleika með viðeigandi greiningartækjum. Margir hurfu frá námi af félagslegum ástæðum og þurfa nú aðeins hvatningu, upplýsingar eða ráðgjöf til að hefja nám á ný. Með sérstöku átaki innan menntakerfisins opnast þessum hópi, sem má áætla að í séu um 40 þús. manns, ný leið til menntunar.

Nýtt tækifæri til náms á að byggjast á aðgengilegu grunn-, framhalds- eða starfsnámi auk sérstakra námstilboða fyrir þá sem vilja bæta við fyrri menntun eða hasla sér völl á nýjum sviðum. Þannig má jafna tækifæri til náms, stuðla markvisst að því að allir nýti tækifæri sín og virkja þann auð sem hvað mestu skiptir, þ.e. mannauðinn.

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsóknum Hagstofunnar síðustu ár eru um 30% þeirra sem eru á vinnumarkaði með grunnskólapróf eða minni menntun. Þetta er markhópur umrædds átaks og er því um 40 þús. manns. Hluti þessa hóps er hinn svokallaði brottfallshópur framhaldsskólans sem talinn er vera allt að 33% af árgangi. Það bendir til þess að þörf sé á nýju tækifæri til náms, auk hins formlega framhaldsskólanáms. Þá er þessi hópur hlutfallslega stærstur meðal atvinnulausra og fellur fyrst út af vinnumarkaði þegar að þrengir.

Átak um nýtt tækifæri til náms hefur einnig mikið gildi litið til framtíðar því að rannsóknir sýna tengsl milli háskólanáms og menntunar foreldra, samanber t.d. sænska rannsókn sem sýnir að 9% barna verkafólks sækja háskóla en um 85% barna háskólamenntaðra. Stéttaskipting framtíðarinnar gæti markast af því hverjir hefðu aðgang og tækifæri til menntunar og hverjir ekki og tekur verkefni sem hér er gerð tillaga um mið af þessu. Annað markmið tillögunnar er að koma í veg fyrir að til verði tvær þjóðir í landinu, þ.e. sú sem hefur tækifæri til þess að afla sér þekkingar og hin sem ekki fær tækifæri til þekkingaröflunar.

Mikil áhersla hefur verið lögð á sí- og endurmenntun undanfarin ár og margt gott verið gert í þeim efnum. Líkt og víða erlendis hefur það hins vegar komið í ljós hérlendis að sá hópur sem minnsta menntun hefur nýtir sér slík námstækifæri síður en aðrir. Er það mat flutningsmanna að ríkisvaldið, atvinnulífið, sveitarfélög og samtök launafólks þurfi að taka höndum saman um átak í þessum tilgangi. Er það sjálfsögð skylda samfélagsins að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms.

Skýringar á því hvers vegna þeir sem hafa styttri skólagöngu nýta sér síður tækifæri til sí- og endurmenntunar geta verið margar. En þessar eru taldar helstar: Í fyrsta lagi slæm reynsla og neikvæðar minningar frá fyrri skólagöngu. Í öðru lagi langur tími liðinn frá því að nám var stundað. Í þriðja lagi lítil námshvatning úr umhverfinu. Í fjórða lagi lág laun og minni skilningur á gildi náms og í fimmta lagi fá tækifæri til náms.

Margar nágrannaþjóðir okkar hafa skipulagt sams konar átak til að hækka menntunarstigið. Má þar nefna Svía, Dani, Norðmenn, Finna og Skota sem hafa skipulagt sérstakt átak til að gefa þeim sem stysta skólagöngu hafa nýtt námstækifæri. Átakið byggist á þeim grunni að örar tæknibreytingar og alþjóðavæðing gerir kröfu um aukna hæfni. Hugmyndafræðin er m.a. byggð á því að mannauðurinn sé mikilvægasta auðlindin og hana megi ekki vannýta. Auka megi hæfni þjóðarinnar með því að leggja áherslu á nám fyrir þann hóp sem hefur stysta skólagöngu, tryggja jafnan rétt allra til náms og sí- og endurmenntun auki hæfni einstaklinga í atvinnulífinu til að mæta sem best kröfum morgundagsins.

Mikilvægt er að tekið verði fullt tillit til þeirrar reynslu sem einstaklingar hafa aflað sér utan hins hefðbundna skólakerfis og hún verði metin sem hluti af námi. Efla þarf formlegt matskerfi sem mælir hæfni einstaklings umfram formlega skólamenntun, slíkt er bæði hvatning til að bæta við þekkingu og til að nýta sér ný námstækifæri. Byggð verði upp ráðgjöf sem sniðin er að þörfum þeirra sem ekki hafa lokið formlegri menntun til að meta og aðstoða við skipulagningu námsins. Venjan er sú að meta menntun út frá formlegu námi, en á tímum símenntunar, þegar þekkingar er aflað eftir ýmsum leiðum, bæði formlega og óformlega, er afar brýnt að slík þekking verði metin á viðeigandi hátt.

Átakinu má skipta eftir hópum, t.d. þeir sem hafa lokið grunnskólanámi, þeir sem lokið hafa grunnskólanámi en þurfa styrkingar og upprifjunar við og þeir sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og eru án grunnmenntunar. Mikilvægt er að allir eigi kost á raunverulegri náms- og starfsráðgjöf, en nú er nánast ekkert slíkt fyrir hendi. Í ráðgjöfinni fælist hvatning og stuðningur til náms og mat á þörfum fólks. Enn fremur þarf að veita upplýsingar um námsframboð og leiðbeiningar um vinnubrögð í námi.

Til að átak sem þetta heppnist er nauðsynlegt að tryggja eins konar þjóðarsátt milli stjórnvalda, samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingar um hækkun menntunarstigs þjóðarinnar. Í því felst að skipta þarf kostnaði milli aðila þar sem allt samfélagið mun hagnast til lengri tíma litið. Í raun er fórnarkostnaður lítill þar sem átakið mun skila hagnaði til allra. Átakið þarf að taka mið af þörfum þeirra sem minnsta menntun hafa og skapa þeim jafnframt aðgengileg tækifæri til náms. Þarfir einstaklingsins þurfa að hafa forgang, námstilboðin þurfa að vera opnari og sveigjanlegri en þau sem boðið hefur verið upp á hingað til og fjölbreytni þarf að vera sem mest. Tengja þarf saman nám og vinnustaði, meta þá reynslu sem fæst með vinnu og auka tengsl fræðslustofnana og atvinnulífs. Þá þarf átakið að tryggja að einstaklingarnir hverfi ekki af vinnumarkaði þótt þeir afli sér viðbótarmenntunar.

Með stofnun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins var stigið mikilvægt skref í sömu átt og markmið tillögunnar. Mikilvægt er að sú reynsla sem þar hefur fengist nýtist sem best en ljóst er að þjónustusamningur menntamálaráðuneytisins við Fræðslumiðstöðina dugar ekki til að ná þeim árangri sem nauðsynlegur er fyrir markhóp tillögunnar. Við endurskoðun þjónustusamningsins er nauðsynlegt að fyrir liggi áætlun um það átak sem tillagan fjallar um, svo taka megi tillit til þess í nýjum þjónustusamningi en samningurinn rennur út í árslok 2006.

Herra forseti. Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir Eflingu, Verslunarmannafélag Reykjavíkur og Starfsmenntaráð um menntareikninga koma fram ýmsar upplýsingar og rökstuðningur sem tengjast þessari tillögu til þingsályktunar. Í upphafskafla skýrslunnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Almennt er talið að menntun auki hagvöxt og framleiðni og bæti lífskjör fólks, enda er eitt helsta hlutverk ríkisins að tryggja jafnrétti til náms. Kröfur um menntun og starfsþekkingu hafa enn fremur vaxið á síðustu árum í atvinnulífinu og tekjubilið milli faglærðra og ófaglærðra breikkað. Þessa þróun má að einhverju leyti rekja til aukinna tækniframfara og alþjóðaviðskipta en hennar gætir um allan hinn vestræna heim. Íslendingar standa að sumu leyti vel í samanburði við aðrar þjóðir hvað menntun áhrærir, einkum hvað varðar fjölda háskólamenntaðs fólks. Hins vegar er ekki sömu sögu að segja um lægri skólastig, en vegna mikils brottfalls úr framhaldsskólum er framhaldsskólamenntun ekki jafn almenn hérlendis og meðal annarra vestrænna ríkja.“

Á mynd 1, sem fylgir hér í greinargerðinni, má sjá að hlutfall þeirra sem lokið hafa framhaldsskólanámi á Íslandi er mun lægra en annars staðar á Norðurlöndunum. Miðað við þær upplýsingar sem hér koma fram, sem eru um þá sem lokið hafa framhaldsskólanámi á aldrinum 25–31 árs á Norðurlöndunum, þá kemur í ljós að hlutfall okkar Íslendinga er aðeins 61% meðan að í Danmörku er það 86%, í Finnlandi 87%, Svíþjóð 91% og í Noregi 93%. Hér er sem sagt um verulegan mun að ræða. En áfram segir í skýrslu Hagfræðistofnunar, með leyfi forseta:

„Þetta hlýtur að teljast áhyggjuefni fyrir íslenskt samfélag þar sem möguleikar og hæfileikar margra einstaklinga eru ekki nýttir sem skyldi vegna skorts á menntun og fagþjálfun. Af þeim sökum má færa rök fyrir því að nauðsyn sé á nýjum úrræðum í menntamálum sem ná til þeirra sem hafa hætt námi eftir grunnskóla en vildu gjarnan bæta við sig þekkingu. Í þessari skýrslu er stungið upp á sérstökum sparnaðarreikningum — svokölluðum menntareikningum — sem nýrri leið að þessu markmiði. Grunnhugmyndin um menntareikninga byggist á því að tekið er fast hlutfall af launum hvers starfsmanns sem er síðan ávaxtað í séreignasjóði með skattfríðindum þar til viðkomandi launþegi ákveður að nýta sér innstæðuna til að sækja sér menntun eða þjálfun. Til viðbótar gæti komið framlag atvinnurekenda sem væri þá einnig fast hlutfall af launum starfsmanns. Ef launþegi hefur ekki nýtt sparnaðinn þegar hann fer af vinnumarkaði getur hann nýtt hann sem lífeyrissparnað. Þetta fyrirkomulag er ekki ólíkt fyrirkomulagi viðbótarlífeyrissjóða hér á Íslandi þó þar sé um mun hærri upphæðir að ræða. Hægt væri að byggja reikningana á því söfnunarkerfi sem nú þegar er til staðar, en það hefur reynst vel og hafa aðilar á vinnumarkaði fengið traust á því.

Þegar kemur að menntun er lykilatriði að þeir einstaklingar sem ljúka menntun, hvort sem hún er starfstengd eða ekki, hljóti einhverja staðfestingu á áunninni færni. Þar kemur fram nauðsyn þess að samræma skráningu menntunar hjá stofnunum sem bjóða upp á menntun og starfsþjálfun þannig að atvinnurekendur og aðrir geti gengið að því vísu hvaða menntun einstaklingur hefur að loknu námskeiði. Norðmenn hafa verið í fararbroddi hvað varðar sameiginlegt skráningarkerfi, svokallað raunfærni kerfi, þar sem frammistaða einstaklinga í námi og þjálfun og færni í vinnu er metin að verðleikum. Markmiðið er að setja upp kerfi sem skráir og metur hæfni, getu, reynslu og þekkingu einstaklinga sem hægt er að nýta á vinnumarkaði og í skólakerfinu. Raunfærni tekur til allrar menntunar og skipulags náms, sjálfsnáms og þekkingar sem aflað er í vinnu, félagsstörfum, námskeiðum og með almennri þátttöku í samfélaginu. Kerfinu er ætlað að vega upp á móti síbreytilegum þörfum vinnumarkaðarins og auka samkeppnishæfni fyrirtækja. Íslendingar standa höllum fæti hvað varðar menntun á framhaldsskólastigi. Í stað þess að halda uppi ósveigjanlegum reglum skólakerfisins væri hægt að koma til móts við þá sem vilja mennta sig frekar. Ljóst er að aðilar á vinnumarkaði eru í fararbroddi þegar kemur að símenntun og ýmiss konar fullorðinsfræðslu á Íslandi, þar sem félagsmönnum er þá boðið upp á möguleika til að bæta við sig þekkingu og auka hæfni í gegnum hina ýmsu starfsmennta- og fræðslusjóði. Stigið hefur verið skref í þá átt að þróa heilsteypt kerfi símenntunar á Íslandi með stofnun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í desember 2002 sem er samstarfsverkefni ASÍ og SA, en eitt af markmiðum hennar er að vinna skipulega að því að meta og votta óformlegt nám og starfsþjálfun í samstarfi við fræðsluaðila og atvinnulífið. ...

Menntareikningum er ætlað að efla símenntun og byggja á því samstarfi sem nú þegar er milli aðila á vinnumarkaði og fræðsluaðila og þannig sporna gegn aukinni misskiptingu menntunar í landinu. Vorið 1998 gerði Félagsvísindastofnun könnun á símenntun á Íslandi miðað við síðastliðna 12 mánuði, en þar kom í ljós að um helmingur þeirra sem svöruðu hafði hlotið fræðslu eða menntun utan skólakerfisins á umræddu tímabili, um 34% sóttu starfstengd námskeið og um 20% tómstundanámskeið. Í könnun um símenntun, sem IBM gerði fyrir menntamálaráðuneytið í febrúar 2003, kom fram að um 49,3% aðspurðra höfðu stundað eitthvert nám á síðustu 12 mánuðum sem er svipað hlutfall og var árið 1998. Niðurstöður Félagsvísindastofnunar sýndu fram á að einkenni þeirra sem sóttu ekki símenntun voru, að vera eldri en 45 ára, hafa stutta skólagöngu að baki og vinna sérhæfð störf. Það kom fram að þeir sem hafa stutta skólagöngu að baki og gætu haft mestan ábata af símenntun sækja hana þó aðeins í litlum mæli. Sá hópur ætti hins vegar að vera eins konar forgangshópur hvað varðar símenntun á Íslandi ef hún á að einhverju leyti að koma til móts við þá sem hafa ekki sótt framhaldsskólanám.“

Herra forseti. Í þessari greinargerð eru sterk rök fyrir þeirri þingsályktunartillögu sem hér hefur verið mælt fyrir og ég vil mælast til þess, herra forseti, að að lokinni umræðu verði tillagan send til menntamálanefndar.