132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Ríkisútvarpið.

8. mál
[18:43]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nokkur orð um frumvarpið fyrst og fremst til að fagna því að það skuli vera fram komið og tekið hér til umræðu. Það kom fram í fyrra og náði þá ekki að komast í umræðu. Það gerði heldur ekki þingsályktunartillaga okkar samfylkingarmanna þar sem ég var 1. flutningsmaður. En Frjálslyndi flokkurinn hafði verið svo kænn að leggja fram sitt þingmál í upphafi þings þannig að við náðum nokkurri umræðu um það þá, að ég held í fjórða eða fimmta skipti, en það dregur ekki úr því að það var ágæt umræða og hefði þurft að halda áfram út veturinn eins og hún var þá. Við höfum ekki endurflutt þingsályktunartillögu okkar á þessu þingi. Ef til vill er full ástæða til þess vegna þess að hún var ekki rædd í fyrra, komst þar með ekki í nefnd frekar en frumvarp hv. þm. Ögmundar Jónassonar og félaga, fékk þess vegna engar umsagnir af faglegum vettvangi og vettvangi almennings, neytenda og eigenda Ríkisútvarpsins. Við vorum reyndar með tvö mál í viðbót, fjölmiðlamál, á þinginu þar áður, um vernd heimildarmanna og um gagnsæi og ritstjórnarfrelsi. Kannski ætti að endurlífga þetta allt saman snöggvast til þess að menn hafi nógu úr að moða þegar hér koma inn þau frumvörp sem boðuð hafa verið af hálfu ríkisstjórnarinnar, nefnilega frumvarp um fjölmiðla annars vegar og hins vegar frumvarp um Ríkisútvarpið. Þau eru ekki komin enn.

Mér þótti athyglisvert að skoða þingsályktunartillögu okkar samfylkingarmanna frá í fyrra. Þar var gert ráð fyrir að vel skipuð nefnd fjallaði um málefni Ríkisútvarpsins, samfara þeirri umfjöllun sem maður hélt að menntamálaráðherra ætlaði að beita sér fyrir um fjölmiðla almennt, til að koma saman nýju frumvarpi eftir fjölmiðlanefndina síðari. Þetta hefði getað orðið samfelld vinna okkar stjórnmálamanna, fagmanna og annarra fulltrúa af þeim vettvangi í vor og í sumar. En niðurstaðan er sú að ekkert varð af þeirri vinnu og bæði þessi mál, fjölmiðlamálið og ríkisútvarpsmálið, kaus ríkisstjórnin að loka inni í menntamálaráðuneytinu þar sem ekki hefur sést til þeirra enn og aðeins borist af þeim óljósar fréttir.

Síðast heyrðist reyndar að Evrópa stæði gegn því frumvarpi sem flutt var í fyrra og heimtaði persónulega að rekstrarforminu yrði breytt frá sameignarfélagi í hlutafélag. Þrátt fyrir að það væri sagt í fréttum hafa ekki enn komið fram gögn frá viðkomandi Evrópuapparati sem áttu að benda til þessa. Það er auðvitað löngu kominn tími til að þau komi fram nú þegar þingið er komið saman. Það er rétt að nota tækifærið og kalla eftir því á allra næstu dögum ef ráðherra leggur það ekki sjálfur fram í þinginu.

Það er best að segja strax að ég hef efasemdir um að við þurfum af evrópskum ástæðum að velja eitthvert rekstrarform öðru fremur á Ríkisútvarpið án þess að ég neiti því með öllu. Það að ráðherra skuli ekki leggja fram þá pappíra, þær ábendingar og bréf sem hafa farið á milli, bendir til að fréttirnar af þessu máli séu ofsagðar. Það kann vel að vera að milli stjórnarflokkanna hafi þessar fréttir gegnt einhverju hlutverki, í samspili flokkanna, en staðreyndin er sú að ekkert frumvarp er komið fram af hálfu menntamálaráðherra og virðist ekki vera von á því á næstunni.

Ég ætla ekki að fjalla í smáatriðum um einstök atriði frumvarps hv. þm. Ögmundar Jónassonar og félaga hans. Ég vil bara segja að þegar slík frumvörp og tillögur koma fram þarf að bera þau við nokkur grunnatriði sem ég og minn flokkur, og að ég held að ýmsu leyti flokkur hv. þm. Ögmundar Jónassonar, teljum að öll skipan ríkisútvarpsmála verði að fara eftir.

Í fyrsta lagi skal Ríkisútvarpið vera raunverulegt almannaútvarp. Þá spyrja menn: Hvað er það? Sú skilgreining er til í evrópskum plöggum sem við eigum aðild að. Hún er önnur en þær skilgreiningar sem taldar voru upp og hlaðið var saman í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra frá í fyrra. Í ákaflega stuttu máli er almannaútvarp útvarp sem tengir saman þjóðina, sem hugar að menningarlegri og félagslegri samstöðu meðal þjóðarinnar og á því menningarsvæði sem þjóðin er hluti af. Það er vettvangur almennrar umræðu og leggur áherslu á innlenda dagskrárgerð.

Til þess að vera burðugt almannaútvarp þarf í öðru lagi að tryggja Ríkisútvarpinu sjálfstæði, bæði pólitískt og viðskiptalegt sjálfstæði. Hér kemur við sögu skipulag Ríkisútvarpsins og starfshættir þess. Galli hefur verið á Ríkisútvarpi okkar frá því það var stofnað að það hefur verið undir pólitískri stjórn sem hefur orðið æ bagalegri síðari ár. Það er líka galli að sú pólitíska stjórn sem blasað hefur við Ríkisútvarpinu á síðustu áratugum hefur þrýst því til hörkulegrar samkeppni við aðrar stöðvar á fjölmiðlavettvangi. Viðskiptasjónarmið ráða því orðið allt of miklu um rekstur Ríkisútvarpsins og koma í veg fyrir að það geti sinnt hlutverki sínu sem almannaútvarp. Þetta merkir að mínu viti að viðskiptalegt sjálfstæði þýðir að Ríkisútvarpið verður að vera sem óháðast tekjum af auglýsingum og kostun án þess að útiloka þar með slíkar tekjur í eitt skipti fyrir öll.

Ég tók eftir því, skrifaði reyndar um það grein sérstaka, að nýr útvarpsstjóri, Páll Magnússon, er sammála mér um þetta og reyndar ýmislegt fleira sem varðar Ríkisútvarpið. Þess vegna lítur maður með nokkurri tilhlökkun til framtíðarinnar í þeim efnum.

Í þriðja lagi þarf ríkisútvarp sem almannaútvarp að vera öflugt, annars er það til lítils. Útvarp sem ætlar sér með auman fjárhag að gera einungis það sem aðrar stöðvar sinna ekki er ekki ríkisútvarp með neitt gildi. Það hefur engin áhrif og í raun gustuk að láta það lifa. Til að reka það þarf tryggan fjárhag, tekjustofna sem eru jafnir frá ári til árs og stöðugir. Það er svo með tekjustofna Ríkisútvarpsins að enginn kostur er þar sérlega góður og kannski allir vondir en þó misvondir. Menn þurfa að vera praktískir í því sem þeir velja í þeim efnum. Auðvitað þarf að gæta þess að tekjurnar séu jafnar og hæfi rekstri Ríkisútvarpsins og hins, að tekjuleiðin sé þannig að sjálfstæði útvarpsins skerðist ekki.

Þetta eru í grunninn þeir þrír mælikvarðar sem þarf að bera við allar tillögur og hugmyndir um framtíð Ríkisútvarpsins. Ég tel, fljótt á litið, að frumvarp hv. þm. Ögmundar Jónassonar og félaga hans uppfylli ýmsar þær kröfur sem þessir mælikvarðar setja. Ég hef efasemdir um aðrar. Ég hef t.d. nokkrar efasemdir um að gert sé ráð fyrir framhaldi á pólitískum fulltrúum við stjórnvöl í Ríkisútvarpinu. En með tímanum hef ég orðið skotnari í þessu tvíveldi sem frumvarpið gerir ráð fyrir og Frjálslyndi flokkurinn hefur líka verið með, með öðrum hætti. Sama má jafnvel segja um Kvennalistann til að byrja með, í upphafi níunda áratugarins. Þar er annars vegar framkvæmdastjórn sem sér um daglegan rekstur, ég tel að í henni eigi fyrst og fremst að vera fagmenn. Hún styðji sig við stefnumótun og stórákvarðanir sem teknar eru af stærra ráði þar sem sætu fulltrúar almennings eða eigenda. Síðan geta menn haft ýmsar uppskriftir að því hvernig á að raða í það ráð.

Önnur athugasemd mín um frumvarp hv. þm. Ögmundar Jónassonar er sú að ég fagna því að flutningsmenn skuli hafa hugrekki til að nefna húsnæðisgjald sem hugsanlega tekjuleið fyrir útvarpið. Þá leið þyrfti að athuga og í framtíðinni gæti komið til greina að setja hana á. Hún er auðvitað pólitískt viðkvæm og þess vegna ber að fagna því að menn skuli hafa hugrekki til að setja hana fram. Sú leið hefur ýmsa kosti fyrir Ríkisútvarpið en hins vegar þann galla — fyrir utan að öll tenging við húsnæði í fjárheimtu er viðkvæm — að sveiflur á húsnæðismarkaði samsvara ekki endilega sveiflum á fjölmiðlamarkaði. Upp gæti komið sú staða að í tekjulitlum árum á húsnæðismarkaði þyrfti Ríkisútvarpið meira fé til sinnar starfsemi. Þetta er svona svolítil athugasemd sem við ræðum auðvitað síðar. Ég vona að okkur gefist tækifæri til þess.

Að lokum segi ég hið sama og í upphafi, að ég fagna því að flutningsmenn skuli hafa fært hugmyndir sínar í frumvarpsbúning. Ég tel að frumvarpið eigi að skoða með opnum huga og rannsaka ásamt öðrum tillögum í menntamálanefnd og í almennri umræðu um málefni Ríkisútvarpsins og fjölmiðlanna sem við berum vonandi gæfu til að halda uppi í vetur.