132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Starfsumhverfi dagmæðra.

96. mál
[13:36]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hér er spurt hvað félagsmálaráðherra hyggist gera til að bæta starfsumhverfi dagmæðra. Ég vil í upphafi leggja á það ríka áherslu að félagsmálanefnd eða félagsmálaráð í hverju sveitarfélagi ber almenna ábyrgð á velferð barna í sveitarfélaginu og skal sjá til þess að aðbúnaði þeirra sé ekki áfátt, samanber lög um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Umsjón og eftirlit með starfsemi dagforeldra er því í höndum sveitarfélaganna en félagsmálaráðuneytið hefur eftirlit með því að sveitarfélögin veiti lögboðna þjónustu samkvæmt lögum. Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að sinna þessu eftirlitshlutverki sínu, m.a. með því að kanna aðstæður barna hjá dagforeldrum.

Á vegum félagsmálaráðuneytis var í desember 2001 unnin viðamikil könnun á aðstæðum barna hjá dagforeldrum í landinu. Niðurstöður hennar bentu til að nokkuð skorti á að framkvæmd þjónustunnar væri í samræmi við ákvæði reglugerðar um daggæslu í heimahúsum frá árinu 1992. Til að mynda leiddi könnunin í ljós að dagforeldrar höfðu of mörg börn í gæslu og í mörgum tilvikum fengu dagforeldrar leyfi til starfans án þess að hafa uppfyllt öll skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi, svo sem um sakavottorð, skoðun eldvarnaeftirlits og slysatryggingu. Sama ár kannaði félagsmálaráðuneytið afstöðu stærstu sveitarfélaganna til þess að dagforeldrum yrði veitt heimild til að fjölga börnum í gæslu úr fimm í sex börn samtímis. Jafnframt var óskað álits Félags íslenskra leikskólakennara um þetta atriði. Samdóma álit þeirra sem leitað var til var að ekki væri rétt, með hliðsjón af hagsmunum og velferð barna, að breyta reglugerðinni þannig að börnum í gæslu hjá dagforeldrum yrði fjölgað í sex og tek ég undir það sjónarmið. Rökin fyrir þeirri afstöðu eru einkum þau að dagforeldrar bera mikla ábyrgð á líðan barna meðan á dvöl hjá þeim stendur.

Í kjölfar þessa var hafist handa við gerð nýrrar reglugerðar um starfsemi dagforeldra. Drög að henni lágu fyrir fyrra hluta árs 2004 og í júní sama ár var skipaður starfshópur til að fjalla um hana. Ég skipaði formann hópsins en í honum voru jafnframt fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, samtökum dagforeldra í Reykjavík og Kópavogi og fulltrúi Kennaraháskóla Íslands. Starfshópurinn hefur nú lokið störfum og ný reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum hefur verið send til birtingar í Stjórnartíðindum og mun öðlast gildi 1. nóvember nk.

Hæstv. forseti. Veigamesta breytingin í drögum að nýrri reglugerð sem var lögð fyrir starfshópinn var tillaga um að fækka hámarksfjölda barna hjá dagforeldrum úr fimm börnum í fjögur. Hugmyndin að baki þessu var sú að sveitarfélögin hækkuðu niðurgreiðslur sínar þannig að dagforeldrar yrðu ekki fyrir 20% tekjuskerðingu. Ekki náðist samkomulag um þetta og var því fallið frá þessari tillögu og er því barnafjöldi hjá dagforeldrum í nýju reglugerðinni, sem mun öðlast gildi 1. nóvember nk., sá sami og hann var í reglugerðinni frá árinu 1992, þ.e. fimm börn.

Helstu nýmæli reglugerðarinnar eru að allt eftirlit og umsjón með starfsemi dagforeldra er eflt til muna með það að markmiði að tryggja öryggi og barnanna sem best. Í nýju reglugerðinni sem unnin var í fullri samvinnu við dagforeldra sem áttu tvo fulltrúa af fimm í starfshópnum er lögð áhersla á ábyrgð sveitarfélagsins varðandi stuðning, eftirlit og fræðslu. Þá er einnig hugað vel að öllu öryggi barnanna. Öll málsmeðferð er jafnframt gerð mun skýrari ef áhyggjur vakna um að aðbúnaður barnanna sé ekki sem skyldi.

Í nýju reglugerðinni er eins og ég gat um mun skýrar kveðið á um ábyrgð og skyldur dagforeldra og þann aðbúnað sem börnum er boðið upp á. Til að mynda skulu húsakynni dagforeldra, lóð, leiktæki og leikföng uppfylla ákvæði reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002. Bæði leikrými og hvíldaraðstaða barna skulu vera í fullnægjandi íbúðarherbergjum. Lögð er rík áhersla á að heimili dagforeldra beri ekki með sér einkenni stofnana.

Að mínu mati er daggæsla barna í heimahúsum mjög viðurkennt dagvistarúrræði fyrir ung börn og ég tel að ef fara á þá leið að styrkja þetta úrræði verði m.a. að efla stuðning, ráðgjöf og fræðslu og auka eftirlit með starfseminni eins og lögð er áhersla á í hinni nýju reglugerð. Vissulega þarf þó að hafa í huga friðhelgi heimila í eftirliti með starfsemi dagforeldra. Einkaheimilin eru starfsvettvangur dagforeldra en það setur starfsemina í nokkra sérstöðu. Taka þarf sérstakt tillit til hennar m.a. þegar eftirlit er annars vegar en það er eins og ég fyrr gat um, hæstv. forseti, í höndum sveitarfélaganna.

Ég hygg að flestir hér í þingsalnum hafi nýtt sér þá þjónustu sem dagmæður hafa boðið upp á í gegnum tíðina. Þær hafa verið mikilvægur hlekkur fyrir okkur og atvinnuþátttöku okkar eða nám. Ég tel að auk þess skýra ramma sem mikilvægt er að sé fyrir hendi á hverjum tíma, bæði fyrir dagforeldra og eftirlitsaðila, þá geti samskipti foreldra og dagforeldra ráðið úrslitum um hvort daggæslan gangi vel. Í fyrrnefndri könnun félagsmálaráðuneytisins frá árinu 2001 kom í ljós að börn dvelja að meðaltali sex klukkustundir á dag hjá dagforeldrum og að um helmingur þeirra er í gæslu allan daginn. Umönnun og uppeldi dagforeldranna skiptir því miklu máli varðandi velferð barns á þessu viðkvæma þroskaskeiði sem fyrstu árin óneitanlega eru.

Hæstv. forseti. Ég tel það ekki í mínum verkahring sem félagsmálaráðherra að fjalla sérstaklega um skattamál þessa hóps. Það er mun fremur á verksviði fjármálaráðherra að fjalla um þau mál en það sem hv. þingmaður nefndi hvað varðar tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til 18 mánaða aldri barns er náð þá tel ég mig geta upplýst að það mál er til sérstakrar umfjöllunar í fjölskyldunefnd þeirri sem forsætisráðherra skipaði á sínum tíma og ég vænti þess að við fáum niðurstöður af þeirri vinnu áður en langt um líður.