132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Starfsumhverfi dagmæðra.

96. mál
[13:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég tók þetta mál upp við hæstv. félagsmálaráðherra vegna þess að hann getur sett starfsramma í kringum starf dagmæðra og haft áhrif á það m.a. að ekki sé verið að mismuna í niðurgreiðslum milli sveitarfélaga, sem hæstv. ráðherra svaraði ekki. Ég nefni að hæstv. ráðherra setti reglur um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga þar sem sett var viðmið um lágmarksfjárhæð í fjárhagsaðstoð. Hæstv. ráðherra getur því eðlilega sett ákveðið viðmið varðandi niðurgreiðslurnar þannig að ekki sé eins mikill mismunur milli sveitarfélaganna og raun ber vitni að hann geti verið allt að tvö- til þrefaldur og jafnvel fjórfaldur. Ég spyr ráðherra um þetta af því að mikið er kvartað yfir þessu af dagmæðrum og ekki síst af ungbarnafjölskyldum og vegna þess að þarna er verið að brjóta á jafnræði ungbarnafjölskyldna eftir búsetu. Ég tel eðlilegt að ráðherra setji í reglugerð ákveðið viðmið varðandi niðurgreiðslurnar sem ekki sé hægt að fara niður fyrir og tel að fordæmi fyrir því sé hjá fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Síðan finnst mér mjög sérkennilegt að niðurgreiðslurnar séu mismunandi eftir að barn nær 18 mánaða aldri, að þær aukist ef um er að ræða niðurgreiðslu á leikskólum en ekki hjá dagmæðrum að sama skapi. Mér finnst að þarna eigi að vera jafnræði á milli og ég spyr um það líka. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni er mjög mikilvægt að dagmæðrakerfið sé styrkt þar sem ekki er fullkomin þjónusta fyrir börn á leikskólaaldri eins og er víða í mörgum sveitarfélögum.

Frú forseti. Ég fann ekki mikil nýmæli í svari ráðherra áðan og hvet til þess að hann svari þeim fyrirspurnum sem ég beindi til hans í máli mínu.