132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Húsnæðismál geðfatlaðra.

145. mál
[13:50]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Félagsmálaráðuneytið lét í samvinnu við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gera umfangsmikla könnun á landsvísu um þarfir geðfatlaðra fyrir búsetu og stoðþjónustu. Könnunin fór fram á fyrri hluta þessa árs með því að aflað var upplýsinga frá 19 aðilum, geðheilbrigðisstofnunum, svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra, félagsþjónustu stærri sveitarfélaga og sveitarfélögum sem hafa tekið að sér framkvæmd þjónustu við fatlaða á grundvelli samnings við félagsmálaráðuneytið.

Fyrstu niðurstöður komu fram í áfangaskýrslu sem var unnin í maí síðastliðnum. Þær lúta einkum að óskum fólks um breytingar á búsetuhögum en í framhaldinu verður athyglinni beint enn frekar að þörfum fyrir stoð-, dag- og endurhæfingarþjónustu við þennan hóp. Í könnuninni veittu flestir veitendur þjónustu upplýsingar um alla þá aðila á skrám sínum sem teljast búa við geðfötlun og við kjósum að nefna notendur. Upplýsingar bárust um 493 notendur. Eðli málsins samkvæmt njóta allir einhverrar þjónustu í dag, mismikillar eftir atvikum. Í mörgum tilvika er búseta og stoðþjónusta talin viðunandi og ekki þörf fyrir frekari aðstoð. Meginniðurstaða könnunarinnar var að 215 manns óskuðu sjálfir eftir breyttum búsetuhögum eða þeir sem veita þjónustuna fyrir þeirra hönd. Notendur í þessum hópi óskuðu ýmist eftir búsetu á sambýli, í íbúð eða íbúðarkjarna eða á áfangaheimili á vegum svæðisskrifstofu eða félagsþjónustu. Hluti hópsins kýs að búa á eigin vegum og þarfnast þá í flestum tilvikum liðveislu. Af þessum hópi dvelja um 50 manns á geðheilbrigðisstofnunum, flestir á langlegu- eða endurhæfingardeildum. Um 40 einstaklingar dvelja hjá foreldrum eða öðrum ættingjum.

Í umræddri könnun var auk þarfagreiningar áætlaður kostnaður við þá þjónustu sem veita þarf þessum hópi, bæði rekstrar- og stofnkostnaður. Sú ákvörðun sem tekin hefur verið, að veita 1 milljarð af söluandvirði Símans og 500 millj. kr. að auki úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til búsetuúrræða fyrir geðfatlaða á árunum 2006–2010 byggist á þeirri áætlun. Það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki.

Hæstv. forseti. Jafnframt er lögð áhersla á að hugað verði vel að öðrum úrræðum, einkum endurhæfingu til þátttöku í samfélaginu sem og dag- og stoðþjónustu með það að markmiði að auka lífsgæði þessa fólks til frambúðar. Náin samvinna við geðheilbrigðiskerfið verður að sjálfsögðu áfram eitt af lykilatriðum þeirrar vinnu.

Í dag eru 108 af þeim 215 einstaklingum sem um ræðir þjónað af heilbrigðiskerfinu en 107 af svæðisskrifstofum og félagsþjónustu sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að allur hópurinn muni með breyttum búsetuhögum fyrst og fremst njóta þjónustu svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga. Áhersla er þó jafnframt lögð á greiðan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu, þar á meðal innlagnir á geðdeildir ef sjúkdómsástand raskast svo mikið að það er talið æskilegt eða nauðsynlegt.

Hæstv. forseti. Það er ekki rétt sem hv. þingmaður spyr um, þ.e. hvort ágreiningur sé á milli félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis um hver eigi að greiða fyrir þjónustu við geðfatlaða. Það verkefni sem hér um ræðir hefur verið unnið í samvinnu þessara ráðuneyta. Um það hefur ekki verið og er ekki neinn ágreiningur, hvorki um framkvæmd né skiptingu kostnaðar enda um samvinnuverkefni að ræða. Gert er ráð fyrir að fé til rekstrar verði að hluta til fært frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til félagsmálaráðuneytisins enda er í raun verið að færa þjónustu við hluta þessa hóps frá fyrrnefnda ráðuneytinu til þess síðarnefnda á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra.

Segja má að þar sé byggt á nýrri framtíðarsýn sem felur í sér að styrkja geðfatlað fólk til sjálfsbjargar í auknum mæli þannig að það geti tekið þátt í samfélaginu á sama hátt og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Það er, hæstv. forseti, í samræmi við þær hugmyndir sem vex stöðugt fylgi, að færa þjónustu við fólk með geðraskanir í ríkara mæli út í samfélagið frá hefðbundnum sjúkrahúsum, rjúfa einangrun og efla sjálfstæði þess og virkja þá reynslu og þekkingu sem það býr yfir. Þær hugmyndir eru hluti af nýrri stefnumótun félagsmálaráðuneytisins í málefnum fatlaðra sem nú er á lokastigi. Sú stefnumótun sem að sjálfsögðu nær einnig til búsetumála verður lögð til grundvallar við útfærslu þess verkefnis sem hér um ræðir.

Það er verið að undirbúa skipun verkefnisstjórnar til að stýra uppbyggingu þessa verkefnis í samráði við hagsmunasamtök og fagaðila. Í verkefnisstjórninni munu m.a. sitja fulltrúar beggja ráðuneytanna, félagsmálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og ég get fullvissað alþingismenn og hagsmunaaðila alla raunar um að þessu verkefni verður fylgt einarðlega eftir í fullri sátt ráðuneytanna sem að því koma með það að markmiði að mikilvæg þjónusta við þennan hóp fatlaðra verði stórlega bætt á næstu árum og það til frambúðar.