132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Húsnæðismál geðfatlaðra.

145. mál
[13:57]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Kannanir og verkefnisstjórnir eru ágætar og nauðsynlegar en í dag búa allt of margir geðsjúkir við óviðunandi aðstæður bæði miðað við fötlun þeirra og heilsufar. Við þingmenn fáum annað veifið erindi frá aðstandendum sem eru að leita ráða. Í morgun fékk ég t.d. bréf frá aðstandanda vegna sjúklings sem hefur verið vistaður í tvö ár á geðdeild og hún spyr mig: „Eru engin úrræði?“ Það þýðir ekkert að vísa hér í sölu Símans, í peninga sem koma eftir nokkur ár. Þessi sjúklingur er búinn að vera inni á geðdeild í tvö ár og hann þarf önnur úrræði fljótt. Hann er heimilislaus og þess vegna er ekki hægt að útskrifa hann af sjúkrahúsi og það er dýrt að vera með fatlaða inni á sjúkrahúsum sem þurfa allt aðrar aðstæður og allt aðra aðhlynningu. Ég kalla eftir því frá hæstv. ráðherra að þeir vinni saman því skiptingin milli ráðuneytanna hefur bitnað á þessum hópum.