132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Einkareknir grunnskólar.

115. mál
[14:13]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tók í ræðu sinni algerlega skarið af með það að hann er hlynntur starfsemi einkarekinna skóla og þar sker hann sig úr meðal félaga sinna innan Samfylkingarinnar í þeim efnum. Kunnara er en frá þurfi að segja að sá stjórnmálaflokkur hefur verið í herferð gegn sjálfstæðum grunnskólum og má þar m.a. benda á Áslandsskóla í Hafnarfirði, en félagar hv. þingmanns þar hreinlega slátruðu þeim skóla sem sjálfstæðum skóla í pólitískum tilgangi fyrst og fremst en voru ekki með hagsmuni barnanna þar í huga.

Á sama hátt hafa félagar hans í Reykjavík markvisst dregið úr starfsemi sjálfstæðra skóla. Má þar nefna Landakotsskóla og Ísaksskóla í því sambandi. Mér þætti hins vegar áhugavert að heyra frá hv. þingmanni hvort vænta megi stefnubreytinga á viðhorfi Samfylkingarinnar til einkarekinna grunnskóla eins og gagnvart einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. Ef ekki þá þætti mér áhugavert að heyra skoðun þingmannsins á því hvort einhver eðlismunur sé á einkarekstri í grunnskólum og einkarekstri í heilbrigðisþjónustu sem hluta af almannaþjónustu.