132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Einkareknir grunnskólar.

115. mál
[14:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fínu umræðu. Hér eru margar og stórar spurningar á sveimi. Að sjálfsögðu finnst mér einkarekstur í menntakerfinu eiga rétt á sér rétt eins og í heilbrigðiskerfinu. Um það blandast mér ekki hugur, svo ég svari hv. þm. Ástu Möller afdráttarlaust um það. Hvað varðar afstöðu Samfylkingarinnar, sem ég túlkaði hér, þá kemur hún deilunni um Áslandsskóla alls ekki við í þessu efni. Hún er af allt öðrum rótum sprottin.

Að mínu mati á að samræma reglur um einkareknu skólana þannig að þeir eigi rétt á tilteknu framlagi. Vera kann að sveitarfélögin telji sig ekki geta mætt því, vegna þess að þau eru misstór. Það er svolítið dapurlegt að gengi sjálfstæðu skólanna eða einkareknu skuli ráðast mest af því hvernig staðan er í hverju sveitarfélagi. Þau eru misöflug eins og við vitum eftir nýafstaðnar sameiningarkosningar þar sem litlar breytingar urðu á sveitarstjórnarstiginu og fjölda lítilla og vanmáttugra sveitarfélaga. Mín skoðun er sú að það eigi að samræma reglurnar og marka sjálfstæðu grunnskólunum skýran lagaramma þannig að rekstur hans verði auðveldari og gagnsærri. Ég er sannfærður um að hann efli verulega skólastig okkar. Það bætir grunnskólastigið að það séu til staðar sjálfstætt starfandi skólar utan um tiltekna hugmyndafræði. Ég skora á hæstv. ráðherra að gefa afdráttarlaust upp í síðara svari sínu hvernig hún vilji sjá breytingar á grunnskólalögunum. Þau ákvæði sem hún talaði um að yrðu gerð skýrari í endurskoðun núna í vetur, hvernig sér hún fyrir sér að þeim málum verði háttað?

Ég tek ekki undir með ráðherra þegar hún hafnar því að banna eða takmarka innheimtu skólagjalda ofan á opinbera framlagið. Ég tel að það komi vel til greina að skilyrða opinbera framlagið við að ekki séu innheimt skólagjöld, eins og er gert í barnaskóla Hjallastefnunnar. Það yrði til að koma í veg fyrir að efnamunur foreldra ráði því hvort barn geti gengið í tiltekinn skóla eða ekki. Þar þarf að tryggja jafnrétti til náms.