132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Námsefni framleitt af aðilum utan skólakerfisins.

123. mál
[14:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi grautar hún öllu saman í svari sínu. Hún gerir engan greinarmun á Lýðheilsustofnun og Landsvirkjun. Ég verð að benda hæstv. ráðherra á að Landsvirkjun er umdeild stofnun og umdeilt fyrirtæki. Kárahnjúkavirkjun er svo umdeild að 40% þjóðarinnar svöruðu því til, í könnun sem Náttúruverndarsamtökin létu gera, að þau væru mótfallin því að farið yrði í þessa virkjun. Ætlar hæstv. ráðherra að segja mér að henni sé alveg sama, láti sér það í léttu rúmi liggja, þótt Landsvirkjun vaði inn í grunnskóla landsins, þó að 40% foreldra grunnskólabarna í skyldunámi hafi mótmælt framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun? Ætlar hæstv. menntamálaráðherra að segja að hún láti sér þetta í léttu rúmi liggja og að það sé sama hvaða aðili framleiði námsefnið? Hann geti bara „dömpað“ því yfir skólabarn í skyldunámi?

Hæstv. forseti. Þetta er svívirðilegt, að hæstv. menntamálaráðherra skuli tala svo ábyrgðarlaust. Námsgagnastofnun er stofnunin sem á að sjá um námsgagnagerð. Fari aðilar í gegnum Námsgagnastofnun með hugmyndir sínar um námsefni fyrir börn í skyldunámi þá mundu allir foreldrar samþykkja það. Þeir vita að Námsgagnastofnun er óháður aðili. Það er Landsvirkjun sannarlega ekki. Ég held að hæstv. ráðherra verði að hugsa þessi mál á nýjan leik og viðurkenna að námsefnið sem börnin okkar fá í grunnskólunum verður að vera hafið yfir allan vafa um að það þjóni tilteknum hagsmunum, sérstaklega umdeildum hagsmunum. Hafa verður ákveðin gildi í huga þegar námsefni er samið, t.d. hlutlægni, trúverðugleika og sanngirni í garð ólíkra sjónarmiða. Við verðum að hafa tryggingu fyrir því að viðeigandi upplýsingar komi fram, að það sem tekið er fyrir í náminu sé í raun það sem skiptir máli.

Hæstv. forseti. Ég treysti Landsvirkjun ekki til að framleiða námsefni fyrir mín börn.