132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Námsefni framleitt af aðilum utan skólakerfisins.

123. mál
[14:30]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að mig og hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur greinir á um marga hluti og sérstaklega hvað þetta varðar. Ég treysti fagfólkinu í skólunum, ég treysti kennurunum og skólastjórunum til að velja námsefni sem er í samræmi við aðalnámskrá. Út af þeirri stefnu ætla ég ekkert að breyta. Ég ætla ekki að fara að miðstýra því alveg ofan úr ráðuneyti hvaða fyrirtæki, hvort sem þau eru opinber eða einkaaðilar, megi senda grunnskólum eða framhaldsskólum landsins námsefni. Það ætla ég ekki að gera. Ég treysti fagfólkinu innan skólanna til þess að meta hvort það námsefni sem verið er að bjóða þeim sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í aðalnámskrá. Það er enginn betur til þess fallin að meta það en fagfólkið sem slíkt.

Ég undirstrika líka það sem okkur greinir á að ég er hlynnt því að það séu fleiri aðilar utan hins opinbera, fyrir utan Námsgagnastofnun, sem koma til með að framleiða og gefa út námsefni, þannig að það sé á hreinu. Svo lengi sem menn uppfylla þær kröfur sem menn gera í aðalnámskrá er það hið besta mál ef fleiri aðilar, einkaaðilar sem opinberir aðilar, koma að því að framleiða gott námsefni fyrir börnin okkar. Það skiptir meginmáli að það uppfylli kröfur aðalnámskrár. Það er mjög til fyrirmyndar hvernig staðið er að málum t.d. í Finnlandi. Ég fagna því sérstaklega að fulltrúar m.a. Samfylkingarinnar skuli styðja það að fleiri en hinir opinberu aðilar komi að námsgagnagerð og ég tel það nokkur tímamót að menn fari að ræða um einkaaðila í þeim efnum.