132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Kjarnorkuvinnslustöðin í Sellafield.

170. mál
[14:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Íslensk stjórnvöld ættu að leggja höfuðáherslu á umhverfismál og hreinleika hafsins í áherslum sínum í alþjóðamálum. Það væri miklu nærtækara að verja háum upphæðum í þann málaflokk í stað þess að eyða hundruðum og jafnvel þúsundum milljóna í það að komast inn í öryggisráðið.

Ein hættan sem steðjar að lífríki hafsins er geislavirk mengun. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem varðar grundvallarhagsmuni Íslendinga, þ.e. að fiskimiðin spillist ekki vegna geislavirkrar mengunar.

Í Sellafield á Bretlandseyjum er starfrækt kjarnorkuendurvinnslustöð sem losar geislavirk efni út í umhverfið en ítrekað hefur orðið vart við leka frá stöðinni. Fyrrum umhverfisráðherra, Guðmundur Bjarnason, skrifaði breskum yfirvöldum á sínum tíma vegna atviks sem átti sér stað fyrir nokkrum árum. Á vormánuðum varð enn og aftur vart við leka frá stöðinni og í kjölfarið skrifaði núverandi hæstv. umhverfisráðherra bréf til yfirvalda í Bretlandi og krafðist skýringa. Þess má geta að umhverfisráðherrar Norðurlandanna hafa krafist þess að hætt verði við að losa geislavirk efni út í umhverfið. Í kjölfar frétta af slysinu skrifaði hæstv. umhverfisráðherra bréf til breskra yfirvalda eins og áður segir og í tengslum við þetta mál hef ég ákveðið að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra:

1. Hefur skýrsla breskra stjórnvalda, sem ráðherra óskaði eftir í bréfi til breskra yfirvalda þar sem lýst var yfir miklum áhyggjum af starfrækslu kjarnorkuvinnslustöðvarinnar í Sellafield og leka geislavirkra efna frá henni, borist íslenskum stjórnvöldum?

2. Hyggst ráðherra fylgja málinu frekar eftir, og þá hvernig?

Þetta er mál sem gengur þvert á alla pólitíska flokka. Við ættum, öll þjóðin, að geta staðið sem einn maður að baki málinu, fá skýr svör og fylgja því mjög fast eftir. Að vísu hefur borið á því að framsóknarmenn hafi verið að hnýta í núverandi hæstv. umhverfisráðherra vegna málsins. Á heimasíðu ungra framsóknarmanna í Skagafirði hefur komið fram mikil gagnrýni á hæstv. umhverfisráðherra um að hún hafi ekki sinnt þessu máli sem skyldi, eins og sagt er að fyrrum ráðherra hafi gert. Ég ætla ekki að taka undir það að þessu sinni heldur sjá hver afrakstur af starfi hennar verður við að fylgja eftir þessu máli sem við Íslendingar eigum að standa saman að sem einn maður.