132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Kjarnorkuvinnslustöðin í Sellafield.

170. mál
[14:43]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir þessa umræðu. Það er mjög mikilvægt fyrir mig sem umhverfisráðherra að finna þann einhug sem er í þessu máli á hv. Alþingi. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni munu umhverfisráðherrar Norðurlandanna koma saman á fundi í Reykjavík síðar í mánuðinum og þá munum við ræða þessi mál sérstaklega og stöðu þeirra. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að bresk stjórnvöld hafa augsýnilega komist upp með slóðaskap. Ef málin hefðu verið í góðum farvegi hefði þetta ekki verið með þessum hætti.

Enn eru að berast fréttir af slóðaskap í þessum efnum eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson nefndi hér. Þá er ég ekki að vísa til þeirrar skýrslu sem Independent komst yfir í Bretlandi og birti, heldur eru ýmsar fleiri fréttir um smærri atvik að berast þessa dagana, bæði í Sellafield og Dounreay. Það er alveg ljóst að þarna er pottur brotinn og augljóst að bresk stjórnvöld þurfa að standa betur að málum hvað þessa hluti varðar. Það kemur auðvitað almenningi t.d. í Bretlandi heilmikið við þegar líka er verið að viðra þar áform um uppbyggingu orkuvinnslu með kjarnorku.