132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Viðbúnaðaráætlun vegna fuglaflensu.

92. mál
[15:25]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að við erum að ræða viðbúnað vegna fuglaflensunnar í þingsölum og lýsa ánægju minni með að íslensk stjórnvöld hafa brugðist skjótt við þeirri ógn sem heilsufari okkar gæti stafað af slíkum faraldri og ætla að tryggja okkur lyf og hefja framleiðslu á bóluefni með Norðurlöndunum. En ég vil taka undir það með frummælanda að það er mikilvægt að þingið fylgist með gangi þessara mála. Ég legg áherslu á að við verðum upplýst um það á Alþingi, og þá sérstaklega heilbrigðis- og trygginganefnd, hvað þessum málum líður og hvernig gengur að vinna að því að ná þessari lyfjaframleiðslu og öðru því sem snýr að viðbúnaði við fuglaflensu hér á landi.