132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Viðbúnaðaráætlun vegna fuglaflensu.

92. mál
[15:30]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er sjálfsagt að heilbrigðis- og trygginganefnd fái aðgang að öllum þeim upplýsingum sem til eru um þetta mál og þeim skýrslum sem teknar hafa verið saman nú þegar. Samstarf heilbrigðisyfirvalda, almannavarna og yfirdýralæknis hefur verið mjög gott og samstarf dómsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis hefur verið mjög náið um málið og það hefur gengið mjög vel.

Varðandi fjármagn hefur verið orðið við öllu sem við höfum farið fram á hingað til. Til innkaupa á inflúensulyfjum hefur verið varið rúmum 100 millj. kr. en það er af varasjóði okkar sem er til ef eitthvað kemur upp af þessu tagi. Árið 2003 voru keyptar færanlegar öndunarvélar fyrir 30 millj. kr. Við höfum lagt til að yfirdýralæknir fari í rannsóknir fyrir 1,8 millj. kr. sem er ekki mikil upphæð en ég hef ekki áhyggjur af að það verði fyrirstaða í því. Að öðru leyti munum við vissulega eftir því sem málinu miðar fram og ef eitthvað nýtt kemur upp fara fram á fjármuni til þess, t.d. ef kaupa þyrfti að meira af bóluefni.

Varðandi löggjöf þarf að koma í lög heimild fyrir innlenda lyfjaframleiðendur til að framleiða lyf í neyðartilvikum sem er einkaleyfi fyrir. Við höfum beint því til viðskiptaráðherra að undirbúa slíka löggjöf.

Ég vona að ég hafi svarað fyrirspurnum hv. þingmanns. Ég endurtek að ég vil kappkosta að halda þinginu vel upplýstu um þetta alvarlega mál. (Forseti hringir.) Það er mikið ábyrgðarleysi að búast ekki við slæmum hlutum í þessu efni en vonandi fer þetta allt á besta veg.