132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Staða loðnustofnsins.

[15:33]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil í byrjun óska hæstv. sjávarútvegsráðherra til hamingju með nýtt starf og óska honum alls velfarnaðar í því.

Ég kveð mér hljóðs til að velta upp nokkrum spurningum um ástand loðnustofnsins, ekki til að fella neinn dóm eða kveða upp úr um ástand hans eða horfur, miklu fremur til að velta upp spurningum því ástandið er að sögn margra sem láta sig málið varða grafalvarlegt. Lengi hefur verið rætt um það meðal sjómanna, fiskverkenda, útflutningsaðila, stjórnmálamanna og annarra sem láta sig fiskveiðar og efnahagsmál einhverju varða að ástand loðnustofnsins kunni að vera með þeim hætti að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því og þær jafnvel nokkuð þungar. Því er m.a. haldið fram að æti í sjónum um þessar mundir sé með minnsta móti og það gangi svo langt að t.d. varp ýmissa fuglategunda, eins og fýls, lunda og kríu, hafi misfarist algerlega á mörgum stöðum. Staðkunnugir telja að æti í sjónum hafi verið með minnsta móti með þeim afleiðingum sem ég nefndi áðan. Þannig halda Vestmannaeyingar því fram að sandsíli við lundabyggðir hafi verið með minnsta móti, Skaftfellingar halda því fram að fýllinn sé allt að því 30% léttari en áður var, að ekki sé minnst á það sem fram kemur í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar um loðnuinnihald í maga þorsks sem sé mun minna en áður var.

Við hljótum því, frú forseti, að velta upp þeirri spurningu hvað valdi þessu ástandi. Við henni eru ugglaust engin afgerandi svör, enda þekking á lífríki sjávar í rauninni afskaplega takmörkuð. Ýmsar skýringar hafa þó heyrst og nægir þar að nefna hækkun sjávarhita sem kann að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lífríkið í sjónum umhverfis Ísland. Aðrir telja að við höfum gengið of nærri loðnustofninum með þeim afleiðingum m.a. að bolfisktegundir gangi þá á aðrar tegundir svo sem rækju og sandsíli og sumir hafa velt því upp hvort rekja megi hrun í rækjustofni til þessa.

Inn í þessa umræðu koma svo áleitnar spurningar sem heyrst hafa, t.d. um stefnu okkar í veiðum almennt, ekki síst umræðan um tengsl einstakra fisktegunda við aðrar eða svokölluð fjölstofnaveiðistefna þar sem metið er hvaða tegundir lifi á hverjum, hvaða tegundir gefi þjóðarbúskapnum mest verðmæti, mestan arð, og hvort ástæða sé til að vernda eina fisktegund umfram aðra í trausti þess að verðmætari tegundir dafni fyrir vikið. Þá má ekki líta fram hjá spurningunni um veiðitækni. Þannig hafa margir horn í síðu flottrollssveiða á loðnu og enn aðrir telja sumarveiðar loðnunnar afskaplega varasamar.

Frú forseti. Á meðan síldarárin svokölluðu voru og hétu, blessuð sé minning þeirra, hirtum við í sjálfu sér lítt um loðnuveiðar. Þar fékk að vera í friði mikill lífmassi í sjónum sem undirstaða fyrir aðrar tegundir. Segja má að loðnuveiðar hefjist ekki að ráði fyrr en upp úr 1970 eða eftir að norsk-íslenski síldarstofninn hrundi. Það vekur athygli að síðan þá má segja að uppbygging þorskstofnsins hafi gengið hægt, allt of hægt að flestra mati. Er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort einhver tengsl kunni að vera þar á milli.

Í framhaldi af þessu leyfi ég mér að beina þeim spurningum til hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann hafi í hyggju að einblína á þá þætti sem hér hafa verið nefndir og velti upp spurningu hvort ástæða sé til að draga úr loðnuveiðum að einhverju leyti í því skyni að byggja upp aðra fiskstofna og verðmætari. Er ástæða til að breyta veiðitíma og veiðiaðferðum við loðnuveiðar? Er talið að hækkun hitastigs hafi haft áhrif á göngumunstur loðnustofnsins eða er loðnustofninn almennt í hættu?