132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Staða loðnustofnsins.

[15:38]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu og enn fremur góðar óskir mér til handa.

Frá árinu 1992 hefur loðnuveiðum á íslenska loðnustofninum verið stjórnað með þeim hætti að aflamark hefur verið ákvarðað með því markmiði að tryggt sé að a.m.k. 400 þús. tonn af loðnu séu skilin eftir til hrygningar. Þegar upphafskvóti hefur verið ákveðinn hefur 67% af áætluðum heildarafla vertíðar verið úthlutað. Endanlegt aflamark hefur síðan verið ákvarðað á grundvelli ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar að afloknum bergmálsmælingum seint að hausti eða í janúar og febrúar.

Á seinustu vertíð veiddust ekki um 200 þús. tonn af útgefnum aflaheimildum og 135 þús. tonn á vertíðinni þar á undan. Það er ekki nýjung að loðnukvótinn náist ekki og liggja til þess margar ástæður eins og hv. þingmenn vita, erfitt tíðarfar og léleg sumarveiði svo að dæmi sé tekið. Þannig náðist ekki t.d. að veiða 430 þús. tonn af aflaheimild vertíðarinnar 1995–1996 og 150 þús. tonn brunnu inni á vertíðinni 1999–2000. Frá því á vertíðinni 1992–1993 og fram á síðustu vertíð hefur hrygningarstofninn ávallt verið yfir 400 þús. tonnum en að meðaltali eru 516 þús. tonn talin hafa hrygnt. Sú vinnuregla að skilja eftir 400 þús. tonn til hrygningar virðist hafa verið árangursrík og hefur ekki leitt til neikvæðrar þróunar á nýliðun í loðnustofninum.

Miklar breytingar hafa á undanförnum árum orðið á útbreiðslu loðnu að sumarlagi og fyrri hluta vetrar. Loðnan virðist undanfarin sumur og haust hafa haldið sig langt utan við íslenska landgrunnið og því hvorki verið aðgengileg til mælinga, veiða né sem fæða fyrir aðra nytjastofna fyrr en seint í desember eða janúar. Vegna þessara breytinga á göngum og útbreiðslu loðnu við Ísland hefur íslenskur þorskur ekki haft aðgang að loðnu nema í mjög takmörkuðum mæli á undanförnum árum. Að því er varðar feita og orkuríka fullvaxna loðnu sem mest áhrif hefur á vöxt og viðgang þorsks fyrir Norðurlandi hefur þetta ástand varað a.m.k. í fimm ár og frá því á vertíðinni 2001–2002 hefur smáþorskurinn heldur ekki haft aðgang að ungloðnu sem neinu nemur. Þess vegna hefur m.a. dregið úr vexti þorsksins eins og kunnugt er.

Það er óvissa um samspil þorsks og loðnu en fæðusýni og meðalþyngdir þorsks sýna þó að loðna er langmikilvægasta fæða íslenska þorsksins, 30% munur var á meðalþyngd þorsks þegar loðnustofninn var í lágmarki og þegar hann var í hámarki. Loðna er um 45% af þeirri fæðu sem greind hefur verið í þorskmögum frá 1980. Át þorsks á loðnu er mest á haustin og veturna frá október til nóvember þegar loðnan kemur til baka úr sumargöngum sínum og þar til hún hefur lokið hrygningu í mars eða apríl.

Enginn vafi er á því að veiðar hafa áhrif á framgang fiskstofna, loðnu við Ísland ekki síður en aðra. Það má hins vegar telja mjög líklegt að heildarveiði loðnu hafi almennt ekki haft umtalsverð áhrif á vöxt og viðgang þorsks á Íslandsmiðum. Undantekning frá þessu eru þó árin 1978–1981.

Síðan 1983 hefur árleg sumarveiði verið til jafnaðar um 370 þús. tonn og seinustu sex árin um 215 þús. tonn. Sókn í sumarloðnu á undanförnum árum hefur jafnframt verið miklu minni en var um langt árabil, m.a. vegna þess að skipin hafa verið í öðrum verkefnum á þessum tíma, t.d. kolmunna og norsk-íslenskri síld. Niðurstaðan er því sú að loðnuveiðar að sumarlagi hafa að líkindum ekki haft umtalsverð neikvæð áhrif á vöxt og viðgang íslenska þorskstofnsins seinustu 25 árin.

Svo spurningu hv. þingmanns sé svarað beint þá er ég ekki þeirrar skoðunar að banna eigi sumarloðnuveiðar. Það er hins vegar skynsamlegt að reyna að hafa hóf á þeim og vitaskuld verðum við að ganga þarna um af fyllstu varkárni. En miðað við þær tölur sem við höfum um litla sumarloðnuveiði og allar aðstæður eru þannig að við getum ekki búist við öðru en að þær verði litlar þá tel ég ekki ástæðu til að banna þessar veiðar auk þess sem þær aðstæður eru í hafinu eins og við vitum að það gefur ekki tilefni til banns á sumarloðnuveiðum.

Við vitum að á undanförnum árum hafa veiðiaðferðir á djúpmiðum að vetrarlagi breyst mikið og það kann auðvitað að hafa haft einhver áhrif á viðgang loðnustofnsins. Til nokkurs tíma var fyrst og fremst veitt með nót en undanfarin ár hefur veiði með flottrolli aukist eins og kunnugt er. Því er ekki að leyna að mjög margir sjómenn og skipstjórnarmenn hafa haft samband við mig út af þessu máli sérstaklega og lýst áhyggjum sínum. Þeir telja að veiðar með flotvörpu splundri torfunum, trufli göngumunstur þeirra og loðnan drepist vegna smugs. Hafa margir jafnvel talið þetta eina ástæðu þess að loðnan hefur ekki gengið að ráði vestur fyrir Reykjanes. Mér er ljóst að um þetta mál eru skiptar skoðanir og margir telja að áhrif flotvörpunnar séu ofmetin. Ég hef því óskað eftir því við Hafrannsóknastofnun að hún leggi sérstaka vinnu í að skoða þessi mál. Stofnunin er nú með tækni til að mæla þessi áhrif. Sú vinna er farin af stað þó að öllum sé ljóst að þessar rannsóknir eru bæði tímafrekar og erfiðar. Engu að síður verðum við að komast til botns í þessu mikla álitamáli. Hagsmunir kunna að vera miklir og auk þess er ekki gott að uppi séu deilur um málið. (Forseti hringir.) Hagsmunir okkar liggja í því að komast til botns í þessu deiluefni og bregðast síðan við í samræmi við það.