132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Staða loðnustofnsins.

[15:55]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég óska nýjum sjávarútvegsráðherra allra heilla í starfi því sem hann er að taka að sér. Vera kann að ræða mín þyki nokkuð undarleg í ljósi þess sem menn hafa sagt hér á undan.

Loðnustofninn er mikilvæg auðlind sem við Íslendingar höfum nýtt undir ströngu vísindalegu eftirliti að því best er vitað. Þó hafa áhrif þessarar nýtingar á lífríkið og aðra stofna ekki verið metin og það liggur ekkert fyrir um þau. Uppsjávarfiskar eins og loðnan eru almennt taldir hafa mjög breytilega stofnstærð vegna umhverfisskilyrða og afráns annarra tegunda. Fljótlega var sú stefna mörkuð að skilja ætti eftir 400 þúsund tonn til viðhalds stofninum. Hafró mælir síðan stofninn og gerir tillögur um veiðarnar.

Það sem hefur vakið athygli mína á undanförnum árum er hve ótrúlega lítill munur er á útgefnu aflamarki á grundvelli þessara mælinga. Í 18 ár af 21 ári hefur heildaraflamarkið verið frá 900 þúsund og upp í 1.300 þúsund tonn, einu sinni meira og tvisvar sinnum minna.

Ef við lítum til annarra stofna hefur sveiflan á ýsunni á sama tíma verið frá 35 þúsund tonnum og upp í 90 þúsund tonn. Í ufsanum hefur sveiflan verið frá 30 þúsund tonnum upp í 92 þúsund tonn. Í þorski á sama tíma hefur sveiflan verið frá 155 þúsund tonnum upp í 350 þúsund tonn. Og frá því að aflareglan tók gildi frá 205 þúsund tonnum og niður í 155 þúsund tonn.

Spurning mín er þessi: Eru þetta trúverðugar niðurstöður? Eru vísindin að sýna okkur eitthvað sem stenst? Ég held að full ástæða sé til að nýr sjávarútvegsráðherra láti skoða málið til enda og menn velti því virkilega fyrir sér hvort þær upplýsingar sem hér eru fram settar (Forseti hringir.) séu réttar.