132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Staða loðnustofnsins.

[15:59]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem og þeim þingmönnum sem tóku til máls. Ég vil sérstaklega lýsa ánægju með það að hér hefur farið fram heil umræða um sjávarútvegsmál án þess að menn væru með hróp, köll eða einfaldar patentlausnir sem því miður hefur allt of oft einkennt umræðu um sjávarútvegsmál. Ætli það séu hin jákvæðu áhrif frá nýjum sjávarútvegsráðherra? Ekki veit ég um það, en ég fagna því.

Ég tek undir það sem hér kom fram að auðvitað er þekking okkar á lífríkinu í kringum hafið og samspili einstakra þátta afskaplega takmörkuð. Aukin þekking og auknar rannsóknir á því sviði eru e.t.v. undirstaða að efnahag okkar því að sjávarútvegur er enn þá það burðarmikil stoð í efnahagslífi okkar. Nægir þar einungis að benda á hvaða áhrif breytt hitastig hefur á einstaka þætti lífríkisins, breytingar á atferli fiska o.s.frv.

Ég velti því upp, frú forseti, að þau 400 þúsund tonn sem ákveðið hefur verið að skilja eftir með þeim rökum að það dugi til að viðhalda stofninum sem hrygningarstofni og við getum þar af leiðandi skilgreint það sem sjálfbæra veiðistefnu, hvort það dugi með hliðsjón af öðrum tegundum. Það kann að duga til að stunda þær loðnuveiðar sem við höfum stundað. En stóra spurningin er hvort það dugar gagnvart öðrum tegundum sem við erum í samkeppni um, t.d. þorski. Þetta held ég að sé eitt af þeim málum sem mikilvægt er fyrir okkur að velta upp. Við þurfum að horfa á heildarhagsmunina, hvernig við náum mestum verðmætum úr þeim lífmassa, úr þeim fisktegundum sem við veiðum og sækjumst eftir. Þar verða auðvitað meiri hagsmunir að ganga fyrir minni hagsmunum.

Ég fagna áherslum hæstv. sjávarútvegsráðherra og tel að þær muni einungis auka þekkingu okkar og það má hann vita að hv. sjávarútvegsnefnd mun standa þétt við (Forseti hringir.) bakið á honum í þeirri stefnu.