132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[10:32]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil beina þeirri fyrirspurn í kurteisi til hæstv. þingforseta hvort verið sé að taka upp ný vinnubrögð á hinu háa Alþingi. Við í Frjálslynda flokknum höfum beint því til hæstv. forseta að hún samþykki utandagskrárumræðu um stöðu útflutningsatvinnugreinanna. Þetta gerðum við um leið og þing kom saman. En svo virðist vera að við fáum okkar mál ekki rædd utan dagskrár. Ég vil því spyrja hæstv. forseta í fullri kurteisi hvernig standi á því vegna þess að fram hefur komið að sumir þingflokkar hafa fengið að koma sínum málum tvisvar á dagskrá.

Það sem er einna verst í þessu máli er að þegar verið er að ræða þetta á fundum hjá hæstv. þingforseta fást engin svör um hver staða málsins er eða hvað upp á vantar. Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. forseti geri grein fyrir hvort við munum fá í framtíðinni sömu afgreiðslu og aðrir flokkar og ef það er eitthvað sem við höfum sagt eða gert sem kemur í veg fyrir það, t.d. að við greiddum hæstv. forseta ekki atkvæði okkar við kosningu þingforseta, það komi þá einfaldlega fram þannig að fólk viti af því í þjóðfélaginu.