132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[10:37]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég eiginlega skil ekki hvaða geðvonskutónn þetta er hjá hv. þingmanni. Eins og komið hefur fram liggja fyrir líklega um 20 beiðnir um utandagskrárumræður og ef þingið ætti strax að bregðast við gerðum við ekkert annað alla daga en vera í utandagskrárumræðum. Eins og ávallt hefur verið á fundum formanna þingflokka með hæstv. forseta var á síðustu fundum reynt að komast að samkomulagi um með hvaða hætti eigi að raða þessum beiðnum niður og sýnist sjálfsagt sitt hverjum um það en menn hafa gert það í sátt og samlyndi. Þess vegna finnst mér kveða við algerlega nýjan tón að hlaupa hér upp um störf þingsins vælandi undan því að hafa ekki komist strax á dagskrá. Það hefur komið fram að hæstv. forseti er að skoða málið eins og ávallt hefur verið gert og ég vildi hvetja til þess að við getum gengið til dagskrár hið fyrsta.