132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[10:40]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Aðeins út af ummælum hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur áðan, þá er það ekki svo að við í Frjálslynda flokknum höfum raskað störfum þingsins með endalausum utandagskrárumræðum. Það væri kannski fróðlegt fyrir þingheim að fá það uppgefið hversu margar beiðnir við höfum farið fram á eða tekið umræður um utan dagskrár í þinginu á undanförnum tveimur árum. Ef það er vandi forsætisnefndar að raða niður dagskrá þingsins vegna mikils fjölda beiðna um utandagskrárumræður á það ekki við um okkur í Frjálslynda flokknum. Ég vil að það komi hér fram svo ekki megi leggja það út af orðum hv. þingmanns að við séum að einoka þingið með beiðnum um utandagskrárumræður. Það er ekki svo og ég vil að hv. þingmaður leiðrétti þau orð.