132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[10:41]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég skal fúslega leiðrétta það ef hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur skilið orð mín þannig að óskir um utandagskrárumræður af hendi Frjálslynda flokksins trufluðu störf þingsins verulega. Ég held ég hafi alls ekki sagt það. Ég sagði hins vegar í heild eru þessar beiðnir mjög margar.

Þannig stendur á núna að það er ein ósk frá varaþingmanni, sem er að fara út af þingi, sem ákveðið var að bregðast við og verður tekin fyrir seinna í dag. Ég held að í sjálfu sér sé ágætissvipur á því þó svo að þar með hafi einn flokkur fengið tvær utandagskrárumræður í þessari viku.

Við skulum líka minnast þess að hér liggur fyrir mikill fjöldi af þingmannamálum. Því var ákveðið að taka þann kúrs að jafnmörg þingmannamál kæmu á dagskrá frá þingflokkum óháð því hversu stórir eða smáir þeir væru sem þýðir að í upphafi verður þingmannamálum raðað þannig að tíu þingmál koma frá hverjum þingflokki, sama hvort í þeim þingflokki eru þrír þingmenn eða 23. Það hlýtur því líka að teljast inn í þessa umræðu ef við erum almennt að tala um hvernig störfum er raðað niður á þinginu og hvernig menn komast að með sín mál.