132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[10:43]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja. Mál þetta er flutt af öllum þingflokki Samfylkingarinnar og er mál sem Samfylkingin leggur mjög mikla áherslu á því fátt er eins brýnt í þjóðfélaginu og að bæta kjör lífeyrisþega og annarra tekjulágra hópa sem hafa orðið undir í því góðæri sem við höfum búið við á umliðnum árum. Ástæða er til að nefna hér í upphafi máls míns það sem verið hefur í fréttum nýverið að ójöfnuður hér á landi hefur stóraukist á síðustu árum og hafa lífeyrisþegar ekki síst fundið fyrir því.

Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, virðulegi forseti, að allt of margir þjóðfélagsþegnar búa við kjör sem duga ekki fyrir nauðþurftum eða lágmarksframfærslu. Neyslukostnaður einstaklinga er samkvæmt upplýsingum Hagstofu um 160–170 þús. kr. á mánuði en mörgum lífeyrisþegum eða um þriðjungi þeirra er gert að lifa af tekjum sem eru undir 110 þús. kr. Um er að ræða aldraða, öryrkja, stóran hóp einstæðra foreldra, atvinnulausa og þá sem búa við langvarandi sjúkdóma. Við viljum breyta þessu með því að koma á afkomutryggingu fyrir þá hópa sem búa við fátækt og óvissu um kjör sín og þessi tillaga er fyrsta skref okkar í þessa átt og lýtur hún að afkomutryggingu aldraðra og öryrkja.

Það er staðreynd, virðulegi forseti, að stjórnvöld skulda lífeyrisþegum leiðréttingu á kjörum þeirra og að bjóða t.d. ekki lífeyrisþegum upp á þann makalausa blekkingarleik með tölur sem hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson fór með í fyrradag. Maður undrar sig á upp úr hvaða hatti hann hefur dregið slíkar tölur. Þar hélt hæstv. ráðherra því fram að kaupmáttur lífeyrisþega almennt hefði aukist um tæp 10% á móti 14% aukningu almennrar launavísitölu á árunum 1998–2003. Þetta er rangur samanburður, launavísitalan sýnir ekki kaupmátt, launavísitalan á þessu tímabili hefur hækkað um 250% og að frádreginni verðbólgu er kaupmáttur almennra launa milli 30–40% á þessu tímabili en ekki 14%. Réttur samanburður er því að bera saman 10% kaupmáttaraukningu lífeyrisþega á móti 30–40% aukningu almennra launa. Þegar ráðherrann ber saman þann þriðjung ellilífeyrisþega sem lægstar hafa tekjurnar og segir að kaupmáttur þeirra hafi aukist um 21% á tímabilinu 1988–2003 þá er aukning kaupmáttar almennra launa milli 30–40% til samanburðar. Kaupmáttur ellilífeyrisþega og lífeyrisþega almennt hefur því aukist þrefalt til fjórum sinnum minna en annarra launþega og litið til þess þriðjungs lífeyrisþega sem lægstar hafa tekjurnar hefur kaupmáttur þeirra aukist tvöfalt minna.

Ég skil satt að segja ekki, virðulegi forseti, hvað vakir fyrir hæstv. ráðherra að halda á lofti slíkum blekkingum í stað þess að leggja hér á borð í þinginu hvaða áætlanir ríkisstjórnin hefur uppi til að skila lífeyrisþegum aftur þeirri skerðingu sem þeir hafa orðið fyrir í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Ljóst er að stjórnarflokkarnir ætla að halda áfram þessari skerðingu og sama atlagan að halda áfram. Ef við lítum bara á hækkun grunnlífeyris samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nú á grunnlífeyririnn að hækka mun minna en verðlagsforsendur fjárlaga þannig að grunnlífeyrir hækkar aðeins um 2,8% í 4% verðbólgu sem áætluð er á næsta ári og lækkar því að raungildi. Og þótt verið sé að hækka tekjutryggingarauka þá eru það 300–400 lífeyrisþegar sem njóta góðs af því en fjármagn til þess er tekið af hreyfihömluðum lífeyrisþegum með því að lækka bifreiðastyrk til þeirra um hundruð milljónir króna þannig að hækkun tekjutryggingarauka til 300–400 manns, sem eru vissulega vel að því komnir, greiða hreyfihamlaðir sem hafa haft bensínstyrk.

Ég hélt satt að segja, virðulegi forseti, að þegar við erum í bullandi góðæri, tekjuafgangur ríkissjóðs er sennilega helmingi meiri en áætlaður var á þessu ári, þá sé það varla forgangsverkefni hjá ríkisstjórnarflokkunum að gera enn eina atlöguna að kjörum aldraðra. Þegar hæstv. ráðherra heldur því fram að samanburður á lífeyrisgreiðslum hér á landi og öðrum Norðurlöndum sé lífeyrisþegum hér í hag og að lífeyrisgreiðslur þar séu lægri en hér er það bara ekki réttur samanburður frekar en annað hjá hæstv. ráðherra fyrr í þessari viku. Hæstv. ráðherra ber saman lífeyrisgreiðslur annars staðar á Norðurlöndum saman við atvinnutekjur og lífeyrisgreiðslur lífeyrisþega hér á landi. Það er auðvitað ekki réttur samanburður að taka atvinnutekjurnar inn í lífeyrisgreiðslurnar og bera síðan saman við lífeyrisgreiðslur eingöngu á öðrum Norðurlöndum. Þetta er auðvitað allt saman tóm blekking.

Ég held að það sé rétt sem ég hef haldið fram að stjórnarflokkarnir muna bara eftir öldruðum og lífeyrisþegum rétt fyrir kosningar eins og núna á landsfundi sjálfstæðismanna sem er fram undan. Hér er einn þingmaður sjálfstæðismanna til svara um það sem hann hefur haldið á lofti í þingsölum, a.m.k. áður en hann fór í þingflokk sjálfstæðismanna, um málefni aldraðra. Það sjáum við í ályktun Sjálfstæðisflokksins sem á að fara að ræða á þinginu sem fram undan er. Þar segir, í þeim drögum sem nú liggja fyrir um málefni eldri borgara, að sérstök áhersla sé lögð á að samþykkt verði að allir þeir sem náð hafa eftirlaunaaldri njóti lífeyris og tengdra bóta almannatrygginga án tillits til greiðslna úr lífeyrissjóðum.

Það verður fróðlegt að vita hvernig þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiða þessari tillögu atkvæði á landsfundinum. Hér kemur m.a. fram að þá sé brýnt að hjón eða sambýlisfólk njóti fullra lífeyrisgreiðslna án tillits til tekna maka. Og orðrétt segir, með leyfi forseta, í ályktun um málefni eldri borgara:

„Landsfundur samþykkir að afnema skuli tekjutengingu við upphæðir sem nemur óskertum lífeyrisgreiðslum almannatrygginga, það er grunnlífeyri, tekjutryggingu, tekjutryggingarauka og heimilisuppbót, til þeirra sem náð hafa 67 ára aldri.“

Það fylgja þessu að vísu ekki útreikningar en ég geri ráð fyrir af því að við erum að tala um þá leið sem við viljum fara, að hækka lífeyri aldraðra um 12 þús. kr. á mánuði til þess að skila þeim til baka skerðingunni frá 1995, að hún kosti um 5 milljarða. Og ef við tökum skerðinguna frá 1990 þá eru það um 8,5 milljarðar samkvæmt því sem ráðherrann upplýsti í gær. Það væri fróðlegt að ráðherrann upplýsti við þessa umræðu hvað sú tillaga sem liggur fyrir landsfundi sjálfstæðismanna muni kosta ríkissjóð.

Maður spyr: Er nauðsynlegt að ráðast að lífeyrisþegum enn eina ferðina eins og gert er í fjárlagafrumvarpinu? Við getum litið til þess, og það kemur fram í því þingskjali sem við ræðum nú, að tekjur ríkissjóðs hafa vaxið gífurlega á sama tíma og lífeyrir hefur verið skertur. Tekjur ríkissjóðs að raungildi hafa vaxið um 100 milljarða kr. en lífeyrir lífeyrisþega hefur á sama tíma verið skertur um 5 milljarða. Í greinargerðinni, sem ég hef ekki tíma til að fara yfir, hefur verið farið rækilega yfir hvernig þessi skerðing hefur farið stöðugt vaxandi. Þar er vitnað til ýmissa útreikninga, m.a. sem gerðir hafa verið af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins og landssamtaka aldraðra, sem allt ber að sama brunni; að ráðist hefur verið mjög harkalega að kjörum aldraðra og lífeyrisþega á síðustu tíu árum. Við getum borið það saman, eins og hér kemur fram, að á árunum 1995–1999 var kaupmáttaraukning lífeyrisgreiðslna þrisvar sinnum lægri en kaupmáttaraukning verkafólks. Á árunum 1999–2002 var kaupmáttaraukning atvinnuleysisbóta 1% en lífeyris 2%. Á sama tíma var kaupmáttaraukning launa verkafólks um 10%. Grunnlífeyrir hefur farið stöðug minnkandi sem hlutfall af lágmarkslaunum verkafólks svo dæmi sé tekið.

Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra af því að vitnað er í ummæli sem hann viðhafði þegar málefni lífeyrisþega voru rædd hér, ég hygg að það hafi verið á síðasta þingi, en hann hefur tekið undir að það komi til álita, hann gerði það í tengslum við umræðu um vaxandi fátækt hér á landi, en þá sagði ráðherra orðrétt, með leyfi forseta:

„Við höfum líka verið með það í skoðun hvort bætur geti fylgt launaþróun og að launaskrið sé líka bætt.“

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað hefur hann gert eftir að þessi ummæli féllu til þess að koma því til framkvæmda sem hann setti í orð á sínum tíma?

Það er ekki nóg með að lífeyrisgreiðslurnar hafi dregist aftur úr heldur hefur skattbyrði aukist verulega hjá lífeyrisþegum. Við höfum margoft farið í gegnum það í þinginu og við nefnum sem dæmi að 10 þúsund ellilífeyrisþega sem nú er gert að lifa af tekjum undir 110 þús. kr. á mánuði greiða nú um 14% af tekjum sínum skatt en greiddu 2–3% af samsvarandi tekjum fyrir tíu árum þannig að sífellt er verið að taka stærri og stærri hlut af lífeyrisgreiðslum lífeyrisþega í ríkissjóð á sama tíma og verið er að lækka skattbyrði þeirra sem hafa það betra og af fjármagnstekjueigendum. Það er öllu snúið á hvolf í þessu sambandi. Það er alltaf verið að gera betur við þá sem hafa það gott í þjóðfélaginu, gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Það er alveg sama hvar er borið niður. Við höfum talað um lífeyrisgreiðslurnar, hvernig þær hafa verið skertar, hvernig skattbyrðin hefur þyngst hjá ellilífeyrisþegum og lífeyrisþegum og við getum líka tekið hvernig sífellt er verið að auka gjaldtökur í heilbrigðiskerfinu, bæði í lyfja- og lækniskostnaði.

Ef við tölum um skattbyrðina af því að hún er mér mjög ofarlega í huga þá skilur maður ekki þegar svigrúm er í þjóðfélaginu til skattalækkana að þá fái þeir minnst í sinn hlut sem eru með lágar tekjur og að aldrei takist að rétta hlut þeirra sem verst hafa það. Skattleysismörkin hafa svo langt í frá haldið raungildi sínu á síðustu tíu árum, við höfum reiknað það út frá línuriti frá fjármálaráðuneytinu sjálfu að raunlækkun skattleysismarka frá 1989 sem mest kemur fram eftir árið 1995, var tiltölulega lítil á árunum 1989–1995, er svo harkaleg að samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins má ætla að ríkissjóður hafi tekið hvorki meira né minna en 36,4 millj. kr. meira til sín árið 2003 en hann hefði gert ef skattleysismörk hefðu fylgt launavísitölu. Ef við miðum bara við neysluvísitölu og hvernig skattleysismörkin hefðu verið þá, þau eru 71.296 kr. að mig minnir á þessu ári, en ættu að vera 114 þús. ef þau hefðu fylgt launavísitölu og 85.709 ef þau hefðu fylgt neysluvísitölunni. Við erum því að tala um að ríkissjóður hafi tekið til sín 36,4 milljörðum meira með því að skerða svona skattleysismörkin miðað við launavísitölu og ef við miðum við neysluvísitölu eru það 16,3 milljarðar.

Hvernig hefur þessum peningum verið varið, virðulegi forseti? Þeim hefur verið varið þannig að farið hefur verið í skattalækkanir á fyrirtæki, gott og vel, og líka á einstaklinga, en þeim hefur verið skipt þannig að þeir sem lægstar hafa tekjurnar, fólk með lágar og meðaltekjur, hafa fengið langminnst í sinn hlut, m.a. vegna þessarar skerðingar á skattleysismörkum. Það er full ástæða til að vekja athygli á því að það sem hefur líka orsakað það sem við stöndum frammi fyrir í dag, hin mikla tekjuskerðing á lífeyrisgreiðslum, er að þessi ríkisstjórn var ekki fyrr komin til valda á árinu 1995 en að hún fór þá leið að klippa á tengsl launa og lífeyris. Það hefur þýtt það sem við ræðum hér, að skerðingin frá 1995 er um 12 þús. kr. á mánuði eða 144 þús. á ári hjá lífeyrisþegum miðað við desember 2004 og það er það sem við í Samfylkingunni ætlum að skila aftur til lífeyrisþega þegar við komumst til valda og það er það sem felst í þeim samningi sem við viljum gera við lífeyrisþega um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja. Við viljum að grunnlífeyrir og tekjutrygging verði sem næst lágmarksframfærslu eins og hún verður skilgreind í samræmi við neysluútgjöld lífeyrisþega. Við viljum að raungildi grunnlífeyris og tekjutrygginga verði ekki lægra við upptöku afkomutryggingar en það var á árinu 1995 og við viljum að sá samningur taki gildi 1. janúar 2007. Auk þess sem er afar mikilvægt að skerðingarhlutfall grunnlífeyris og tekjutrygginga verði rýmkað verulega til að auka svigrúm til atvinnuþátttöku. Það kemur hér fram að það er alveg skelfilegt að sjá hve litlar atvinnutekjur lífeyrisþega geta skerst mikið ef lífeyrisþegar hafa smávegis atvinnutekjur. Bent er á dæmi að af 10 þús. kr. í auknar atvinnutekjur á mánuði er tekið í skerðingu og skatta 84,44%. Þessu viljum við breyta með því að draga verulega úr skerðingarhlutföllum grunnlífeyris og tekjutrygginga.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tíma til að ræða meira þetta brýna mál en óska eftir að fara aftur á mælendaskrá til að geta lokið því sem ég hef fram að færa í þessari umræðu.