132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:06]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagðist vona að afstaða mín í baráttu minni fyrir bættum kjörum aldraðra hefði ekki breyst þó um flokkaskipti hefði verið að ræða. Ég fullyrði við hv. þingmann að baráttuhugur minn hefur ekkert breyst í þessum efnum. Ég vil líka trúa því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem sjálf skipti um stjórnmálaflokka fyrr á tíð, að hennar innri maður hafi ekki breyst við þau flokkaskipti þó svo þau hafi átt sér stað á árum áður. Það sama er upp á teningnum í þessu tilviki.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að tíðrætt var um söluandvirði Símans og hvernig verja ætti þeim fjármunum á sínum tíma fyrr í þinginu. Ég leyfi mér að segja að ég var talsmaður þess að eldri borgarar sem í raun byggðu upp það fyrirtæki fengju sinn skerf af þeim fjármunum. Hins vegar hef ég fengið þau svör og þær upplýsingar innan minna raða að öflugt starf er í gangi undir stjórn hæstv. heilbrigðisráðherra, vinnuhópur þar sem saman kemur fólk úr ráðuneyti og fulltrúar aldraðra. Ég bind miklar vonir við niðurstöður þeirrar vinnu og mun fylgjast með þeim niðurstöðum ákaflega vel.

Í annan stað vil ég nefna að landsfundur sjálfstæðismanna sem verður haldinn núna um helgina gefur til kynna að það verði — það kom strax í kvöldfréttum í gær að eitt helsta baráttumálið á þeim fundi yrði einmitt kjör aldraðra. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja í þeirri baráttu og gleðst ákaflega mikið yfir því eftir að hafa verið í stuttan tíma í Sjálfstæðisflokknum að þar eru mjög sterk öfl sem vilja vinna öldruðum bættan hag og ég mun ekki láta mitt eftir liggja í þeim efnum. (ÖJ: Er það barátta við Framsóknarflokkinn?)