132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:08]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óska hv. þm. Gunnari Örlygssyni góðs gengis á landsfundi þeim sem hann situr núna um helgina og ég mun fylgjast spennt með fréttum, hlusta á rödd hans þar sem hlýtur að verða mjög hávær miðað við það sem hann segir í ræðustól og miðað við áhuga hans á þessu máli. Ég dreg það ekki í efa. Það var fyrst og fremst aðvörun sem ég vék að hv. þingmanni og vona að hann hafi ekki breytt um skoðun þó að hann hafi breytt um flokk. Ég bíð auðvitað spennt eftir að heyra í hv. þingmanni á landsfundi sjálfstæðismanna. Hann hlýtur að hafa þá verulegt fylgi við þessa skoðun miðað við að þetta kemur fram í landsfundarályktun, að afnema eigi tekjutengingu við upphaf sem nemur óskertum lífeyrisgreiðslum almannatrygginga, þ.e. grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki og heimilisuppbót. Ætli við séum ekki að tala um fjárhæð upp á um 10–15 milljarða kr. og ég tel að ellilífeyrisþegar og öryrkjar séu ekkert of sælir af þeirri fjárhæð.

En við vorum í gær að tala um fjárhæðir, 12 þús. og 17 þús. kr., sem átti að skila til baka af því sem hafði verið tekið af ellilífeyrisþegum sem kosta ekki nema 5 og 8 milljarða og hæstv. heilbrigðisráðherra þurfti ekki að hugsa sig um tvisvar. Hann kom hérna upp í ræðustól og neitaði því alfarið að það stæði nokkuð til að hækka lífeyrisgreiðslur lífeyrisþega um þá fjárhæð. Þá spyr ég: Er þetta enn einn blekkingarleikurinn í þessum ályktunum sem fram koma á landsfundi sjálfstæðismanna? Ég man nefnilega eftir að hafa séð þessa ályktun áður, fyrir tveimur árum og fjórum árum. Þetta kemur aftur og aftur upp í landsfundarályktunum sjálfstæðismanna en það er alltaf gengið þveröfugan veg og ekki staðið við eitt eða neitt, kjör aldraðra aldrei bætt heldur þvert á móti hafa þau verið skert eins og við höfum farið í gegnum hér. Aldraðir eiga ekki skilið að verið sé að blekkja þá eins og verið er að gera í þessum landsfundarályktunum Sjálfstæðisflokksins sem ekkert, engin innstæða virðist vera á bak við.