132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:14]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt að ég væri í andsvari við þingmanninn en ekki hún við mig.

Mig langar til að segja líka að hv. þingmaður sagði að skattbyrðin hefði þyngst. (Gripið fram í: Ætlarðu ekki að svara spurningunni?) Ég ætla að gera það á eftir, nógur er tíminn. Það er ekkert skrýtið að skattbyrðin þyngist þegar launin og lífeyrir hækkar allt saman langt umfram verðlag, það er ekkert skrýtið. Skattkerfið er þannig upp byggt að þeir sem hafa hærri tekjur borga hlutfallslega meira. Það er ósköp eðlileg skýring á því. Það er kannski vandamál að launin hækki svona svakalega og lífeyririnn líka.

Síðan vil ég benda hv. þingmanni á að ég veit ekki til þess að hún taki þátt í landsfundi Sjálfstæðisflokksins og það er ekki einu sinni búið að setja þann fund, þannig að ég ætla ekki að ræða það neitt sérstaklega.