132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:41]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði að lífeyrisþegar hefðu ekki náð helmingi af kaupmáttaraukningu almennra launþega. Þetta sagði hún. Ég vil að hún finni þeim orðum stað.

Í svari hæstv. heilbrigðisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur kemur allt annað fram. Það svar er að finna á þskj. 1383, frá löggjafarþinginu 2004–2005. Ég hef farið í gegnum það í flýti og mér sýnist á töflu sem þar er sett fram að lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar hafi allar hækkað meira en laun almennt og sumar verulega mikið meira. Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér þetta svar hæstv. heilbrigðisráðherra til samflokksmanns hennar hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur.